Húðflúrhátíð í Reykjavík

Húðflúrhátíðin Icelandic Tattoo Convention er haldin í sjöunda sinn á Bar 11 en hátíðin var sett á fimmtudaginn og verður slitið í kvöld. Á hátíðina koma húðflúrlistamenn frá fimm löndum og gefst gestum hennar því tækifæri á að fá sér húðflúr í heimsklassa við bæjardyrnar að sögn Össurar Hafþórssonar, skipuleggjanda hátíðarinnar.

Ýmsar hljómsveitir koma fram á hátíðinni og skemmta gestum og gangandi og þá gefst gestum hennar tækifæri á að sjá bíla- og mótorhjólasýningu þar sem Cadilac klúbburinn verður í aðalhlutverki.

„Við vonumst til þess að sem flestir láti sjá sig og að áhugi vakni hjá fleirum á því að fá sér húðflúr. Hátíðin hefur stækkað með hverju árinu en það er eftirtektarvert hversu margir ferðamenn hafa tekið þátt í henni í ár. Það er mjög skemmtileg viðbót við flóruna sem mætir á hátíðina.“

Hátíðinni verður slitið í kvöld með afhendingu verðlauna fyrir besta húðflúrið og ætti enginn áhugamaður um húðflúr að láta það fram hjá sér fara að sögn Össurar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert