Hverfandi líkur á sameiningu

Sveitarfélagið Garður stendur vel fjárhagslega.
Sveitarfélagið Garður stendur vel fjárhagslega. mbl.is/Rax

Davíð Ásgeirsson, formaður bæjarráðs sveitarfélagsins Garðs, segist telja hverfandi líkur á að Garður muni sameinast Sandgerði og Reykjanesbæ, en þessi tvö sveitarfélög hafa óskað eftir formlegum viðræðum við Garð um sameiningu.

Á síðasta fundi bæjarstjórnar Garðs var tillaga sjálfstæðismanna um að Garður myndi óska eftir viðræðum við Reykjanesbæ samþykkt. Davíð sagði sjálfsagt mál að heyra hvaða hugmyndir Reykjanesbær væri með varðandi sameiningu. „En ég held að það séu hverfandi líkur á að þessi sveitarfélög sameinist.“

Enginn fundur hefur enn verið haldinn með stjórnendum sveitarfélaganna um sameiningu.

Fjárhagsstaða þessara þriggja sveitarfélaga er ólík. Sandgerði er skuldsettasta sveitarfélag landsins og skuldar 456% af tekjum. Staða Reykjanesbæjar er einnig slæm og sveitarfélagið skuldar hátt í 300% af árstekjum. Garður er hins vegar í hópi þeirra sveitarfélaga sem standa best á landinu og skuldar ekki neitt.

Árið 1993 var kosið um sameiningu Sandgerðis, Garðs, Voga, Grindavíkur, Keflavíkur, Njarðvíkur og Hafna. Sandgerði, Garður, Vogar og Grindavík höfnuðu þá sameiningu.

Árið 2005 var lögð fram tillaga um sameiningu Reykjanesbæjar, Sandgerðis og Garðs. Íbúar Reykjanesbæjar samþykktu tillöguna, en íbúar Garðs og Sandgerðis höfnuðu henni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert