Aukið aðgengi almennings að lögreglu

Facebook síða lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Facebook síða lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins segir að notkun samfélagsmiðla sé mikilvæg fyrir lögregluna. Þeir hafi skapað nýja möguleika fyrir lögregluna til að sinna störfum sínum og ný tækifæri til þess að ná betur en áður þeim markmiðum sem að er stefnt.

Þetta kemur fram í grein sem Stefán Eiríksson lögreglustjóri birtir á vef Skýrslutæknifélags Íslands, og vísar í á Facebook-síðu lögreglunnar.

Hann segir að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafi undanfarin misseri verið að prófa sig áfram með notkun samfélagsmiðla í tengslum við störf lögreglunnar. Verkefnið hafi vakið mikla athygli, bæði á Íslandi og erlendis, og viðtökurnar hafi verið afar góðar og jákvæðar.

„Þegar samfélagsmiðlar á borð við Facebook og Twitter voru komnir í almenna notkun kviknaði sú hugmynd að hægt væri að nota þá með beinum eða óbeinum hætti í starfsemi lögreglunnar. Í fyrsta lagi var það mat okkar að með virkri þátttöku á samfélagsmiðlum væri unnt að auka sýnileika lögreglunnar, í öðru lagi gætu þessir miðlar komið að góðum notum í forvarnastarfi og jafnvel við rannsóknir sakamála, í þriðja lagi væri unnt að auka og efla upplýsingamiðlun, án þess að þurfa að treysta á hina hefðbundnu fjölmiðla og í fjórða lagi væri unnt að auka aðgengi almennings að lögreglu. Með þessi fjögur atriði í huga var ákveðið að láta slag standa og síður lögreglunnar á Facebook og Twitter voru opnaðar síðla árs 2010,“ skrifar Stefán.

Hann segir það sitt mat að þá jákvæðu reynslu sem lögreglan hafi upplifað með virkri notkun samfélagsmiðla sé hægt að yfirfæra á alla aðra opinbera starfsemi sem og aðra starfsemi.

„Nokkur atriði eru mikilvæg í því sambandi, þar á meðal að samskipti á þessum miðlum séu ekki of stofnanaleg enda er hver og einn einstaklingur inni á þessum miðlum á eigin forsendum og gerir kröfur um samskipti á jafningja grundvelli. Einnig er mikilvægt að hafa í huga að þessi samskipti eru í grunninn gagnvirk; til þess að fá þau jákvæðu atriði út úr þessu sem lögreglan hefur upplifað er það lykilatriði að opið sé fyrir athugasemdir og önnur viðbrögð og því sé öllu svarað eins og kostur er. Í þessari gagnvirkni felst að stórum hluta það viðbótargildi sem felst í samfélagsmiðlunum og tryggir betur en flest annað áhuga fólks á því að fylgjast með því sem í gangi er og tryggð við miðilinn,“ skrifar Stefán.

Lögreglumenn eru ekki bara í tölvunni á vaktinni. Stefán Eiríksson …
Lögreglumenn eru ekki bara í tölvunni á vaktinni. Stefán Eiríksson lögreglustjóri (t.h.) sést hér við eftirlit. mbl.is/Júlíus
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert