Enginn deyi í Volvo eftir 2020

Anders Eugensson framkvæmdastjóri hjá Volvo sagði fjallaði um slysalausa framtíð …
Anders Eugensson framkvæmdastjóri hjá Volvo sagði fjallaði um slysalausa framtíð í Hörpu í dag. Ljósmynd/Brynjar Gauti Sveinsson

Frá 2020 er stefnt að því að enginn láti lífið eða slasist alvarlega í Volvo. Ný tækni gerir bílnum m.a. kleift að lesa umferðarskilti, „sjá" vegfarendur og nauðhemla ef bílstjórinn gerir það ekki. Anders Eugensson framkvæmdastjóri hjá Volvo, sem staddur er hér á landi, segir fullkomlega raunhæft að stefna að slysalausri framtíð í Volvo.

Fjórum sinnum fleiri dóu fyrir 40 árum

Bílaframleiðendur, með Volvo í fararbroddi, keppast við að hanna bíla sem ekki leiði til banaslysa, en er það gerlegt? „Við getum ekki lofað því en við höfum greint það mjög vandlega hvaða skref við þurfum að taka til að ná þessu markmiði og við teljum að við getum gert það," sagði Eugensson í samtali við Mbl.is í dag að loknu erindi sem hann flutti á ráðstefnunni Via Nordica 2012 í Hörpu. Þar eru samankomnir ríflega 800 norrænir vegagerðarmenn til að ræða m.a. nýjustu þróun í vegagerð og umferðaröryggi.

Innleiðing bílbeltisins hafði mikið að segja við að draga úr alvarleika slysa. Barnabílstólar og loftpúðar hafa líka skilað miklu. Sagan sýnir því að þróun öryggisbúnaðar í bílum skiptir máli. Áhættan af því að sitja í bíl hefur, að sögn Eugensson, dregist saman um tvo þriðju á síðustu 40 árum.

Hjá Volvo er náið fylgst með árangrinum og hann sést svart á hvítu: Á tímabilinu 1965-1970 létu fjórum sinnum fleiri lífið í Volvobíl en á tímabilinu 2005-2010. Markmiðið er hinsvegar núllsýn, að enginn deyi eða slasist alvarlega í  Volvo, en Eugensson segir að til þess að það takist sé ekki hægt að reiða sig á bílstjórann einan því mannleg mistök verði alltaf gerð.

Bíllinn eins og dráttarklár, lætur ekki stýra sér á  tré

Volvo setti stefnuna um núllsýn í öryggismálum árið 2007, og gekk þannig í lið með sænskum stjórnvöldum sem 10 árum fyrr, árið 1997, ákváðu að taka upp núllsýn í umferðarmálum almennt. Eugensson segir að þetta sé vissulega mikil áskorun, aðeins 8 ár séu til stefnu, en hjá Volvo sé markmiðið tekið alvarlega og mikið púður sett í árekstrarprófanir og rannsóknir á hegðun og viðbrögðum bílstjóra við umhverfinu.

„Við erum með stórt teymi af verkfræðingum sem einbeitir sér bara að þessari þróunarvinnu. Þetta er grundvallaratriði í okkar framtíðarsýn," segir Eugensson, sem sjálfur er verkfræðingur og vann að árekstrarprófunum á Volvo 850 á 9. áratugnum.

Hann líkir framtíðarbílnum við dráttarklár fortíðarinnar. Hann lúti þeim sem hafi  taumhaldið, en ef bílstjórinn t.d. sofnar undir stýri, þá muni bíllinn ekki samþykkja að vera ekið á tré eða fram af kletti, heldur sjálfur grípa inn í. Þetta er gert með þróun tæknibúnaðar sem koma á í veg fyrir árekstra, eða koma í veg fyrir að þeir séu banvænir. 

Bíllinn sér vegfarendur og nauðhemlar

Sem dæmi um nýjan öryggisbúnað Volvo má nefna skynjara sem nema alla hreyfingu sem framundan er, bæði vegfarendur og bíla. Sjálfvirkur bremsubúnaður stöðvar bílinn rétt fyrir árekstur ef bílstjóri hefur ekki gert það sjálfur. Ef ekið er á vegfaranda dregur loftpúði undir húddinu úr högginu sem skellur á honum. Bílar munu geta lesið umferðarskilti á nokkrum tungumálum og gert athugasemdir ef bílstjóri hefur ekki dregið úr hraða í samræmi við hraðatakmarkanir. Bíllinn lætur vita ef eitthvað er í blinda blettinum þegar skipt er um akrein, og sveigir sjálfkrafa aftur inn á akreinina ef stefnt er út af veginum.

Fleiri bílaframleiðendur eru í svipuðum hugleiðingum. Toyota stefnir að framtíð án banaslysa og bæði í Þýskalandi og Bandaríkjunum er verið að þróa sambærilega tækni og hjá Volvo. Núllsýnin í öryggismálum er þannig að breiða úr sér, en aðeins Volvo hefur sett sér tímamörk til að ná því markmiði. Til þess að útrýma banaslysum ekki aðeins í Volvo heldur í umferðinni almennt segir Eugensson hinsvegar að þörf sé á aukinni samvinnu milli bílaframleiðenda, vegagerðarmanna og stjórnvalda.

Ekki fráhrindandi fyrir bílstjórann

Ekki eru allir á einu máli um ágæti þess að bíllinn hafi vit fyrir bílstjóranum. Rannsóknir á skilvirkni þessarar nýju tækni eru skammt á veg komnar en benda þó til þess að hún skili árangri. T.d. sýnir tölfræði frá Highway Loss Data Institute í Bandaríkjunum að 27% færri tryggingakröfur eru gerðar á Volvo bíla með sjálfvirkum bremsubúnaði, sem koma á í veg fyrir aftanákeyrslur, en aðra sambærilega bíla. Við Leeds háskóla var niðurstaða rannsóknar á innbyggðum hámarkshraðabúnaði sú að hann gæti dregið úr alvarlegum slysum um tæp 28%.

Aðspurður segist Eugensson ekki óttast að ökumönnum finnist fráhrindandi tilhugsun að bíllinn taki völdin. Rannsóknir sýni að fólk vilji öryggi. „Ég held ekki. Bíllinn veitir bara stuðning, hann lætur bílstjórann fyrst vita hvað þurfi að gerast og gefur honum svigrúm til að bregðast sjálfur við. En ef hann gerir það ekki, þá grípur bíllinn inn í á síðustu stundu. Mér finnst þetta augljóst. Þegar fólk upplifir það að vera svo nálægt því að lenda í slysi mun það hugsa með sér: „Guði sé lof að ég var á þessum bíl."

Volvo S60 er með breiðara sjónsvið en ökumaður og skannar …
Volvo S60 er með breiðara sjónsvið en ökumaður og skannar bæði ökutæki og vegfarendur framundan. Ljósmynd/Volvo
Loftpúði undir húddinu dregur úr högginu á gangandi vegfaranda ef …
Loftpúði undir húddinu dregur úr högginu á gangandi vegfaranda ef keyrt er á hann. Ljósmynd/Volvo
Bíllinn sér mótorhjólamann í blinda blettinum og les hver hámarkshraðinn …
Bíllinn sér mótorhjólamann í blinda blettinum og les hver hámarkshraðinn er samkvæmt skiltinu. Ljósmynd/Volvo
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert