Jafnréttisstofa: Kynjakvóti í lagi í framhaldsskólum

Verzlunarskóli Íslands.
Verzlunarskóli Íslands. Árni Sæberg

„Út frá jafnréttissjónarmiði er æskilegt að jafna sem mest stöðu kynjanna í framhaldsskólunum. Mér finnst út af fyrir sig jákvætt að skóli beiti kynjasjónarmiði og það er í samræmi við jafnréttisstefnu Verzlunarskólans, sem hefur rétt til þess að ákveða hverjir eru teknir þar inn,“ segir Kristín Ástgeirsdóttir, framkvæmdastýra Jafnréttisstofu, en strákar þurfa lægri einkunnir en stelpur til að komast inn í skólann.

„Skólanum er heimilt að gera þetta samkvæmt jafnréttislögum. Ég held að það sé gott að aðgangur beggja kynja að menntun sé sem jafnastur. Við höfum verið að berjast fyrir því.“

„Það þyrfti auðvitað að skoða miklu betur hvernig stendur á því að strákar fá lægri einkunnir út úr grunnskólanum en stelpur. Vandinn hlýtur að liggja þar,“ segir Kristín.

„Fyrir kreppu voru talsvert fleiri stelpur en strákar í framhaldsskólum, en þeir hafa verið að skila sér eftir hrunið. Þannig að hlutföllin hafa jafnast að einhverju leyti.“

Kristín vitnar í reynslu sína af kennslu og segir það algengt að strákar séu nokkuð á eftir í þroska á þessum mótum grunn- og framhaldsskóla. „Það er þroskamunur á kynjunum á þessum aldri, hann er töluvert áberandi og það breytist svo yfirleitt á fyrsta vetrinum. Það má þá spyrja: Er réttlátt að útiloka þá, ef vitað er að þessi munur á eftir að jafnast út?“

Frétt mbl.is: Strákar þurfa lægri einkunnir en stelpur til að komast inn í Verzló

Kristín Ástgeirsdóttir.
Kristín Ástgeirsdóttir. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert