Telja að barninu líði vel í frístund

Árlegt kassabílarall frístundaheimila í Vesturbæ Reykjavíkur.
Árlegt kassabílarall frístundaheimila í Vesturbæ Reykjavíkur. mbl.is/Ómar Óskarsson

Niðurstöður foreldrakönnunar meðal barna á frístundaheimilum Reykjavíkurborgar benda til þess að víðtæk ánægja sé með þá þjónustu sem þar er boðið upp á.

Tæp 90% foreldra telja að barni þeirra líði vel á frístundaheimilinu og 83% foreldra telja dvöl á frístundaheimili hafa góð áhrif á félagsfærni barnsins. Um 70% foreldra barna á aldrinum 6-9 ára í borginni nýta sér þjónustu frístundaheimilis, en það hlutfall var 60% árið 2010. Þetta kemur fram í frétt á vef Reykjavíkurborgar.

 Í könnuninni kom einnig fram að um þriðjungur foreldra vill efla frístundastarf fyrir 10-12 ára börn, en jafnframt að minnihluti foreldra barna á þeim aldri taldi sig þekkja þá þjónustu sem er fyrir hendi. Um 84% foreldra á unglingastigi sögðu barn sitt hafa sótt félagsmiðstöð á þessu skólaári. 70% unglinganna sóttu starfið vikulega eða mánaðarlega en hinir sjaldnar. Þeir foreldrar sem sögðu barnið ekki hafa sótt félagsmiðstöð sögðu áhuga barnsins ráða mestu þar um. Ánægja foreldra með líðan barnsins var mikil og um 94% foreldra töldu þátttökuna hafa jákvæð áhrif á félagsfærni barnsins.

 Viðhorfskönnun með foreldra er mikilvægt tæki til að móta gæðaviðmið og stefnu um metnaðarfullt frístundastarf fyrir börn og unglinga í Reykjavík.

Fyrirhuguð er umfangsmeiri könnun á frístundastarfi á haustönn 2012.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert