Um 270 skjálftar í síðustu viku

Jarðskjálftar á landinu í síðustu viku.
Jarðskjálftar á landinu í síðustu viku. Mynd/Veðurstofa Íslands

Um 270 jarðskjálftar mældust með kerfi Veðurstofu Íslands í síðustu viku, flestir á Norðurlandi og í Mýrdalsjökli. Stærsti skjálftinn mældist 7. júní norður af Hábungu í Kötluöskju en hann var þrír að stærð.

Á vefsvæði Veðurstofu Íslands má finna yfirlit skjálfta í liðinni viku. Þar segir að nokkrir jarðskjálftar af stærðinni Ml 1,5 - 2,5 hafi mælst út á Reykjaneshrygg. Á Reykjanesskaga mældust aðeins um 15 smáskjálftar, allir innan við Ml 2 að stærð, flestir á Krýsuvíkursvæðinu.

Suðurland

Tæplega 50 smáskjálftar mældust á Suðurlandi. Þar af voru fjórir við Húsmúla. Upptök skjálfta á Suðurlandsundirlendinu voru á þekktum sprungum. 

Mýrdalsjökull

Yfir 50 jarðskjálftar mældust innan Kötluöskju í vikunni. Smáhrina með 15 skjálftum varð um hádegi 7. júní norður af Hábungu. Stærstu skjálftarnir urðu kl. 11:57, Ml 3 að stærð, og kl. 12:45, 2,4 að stærð. Aðrir voru innan við Ml 2. Tugur skjálfta mældist undir vestanverðum jöklinum og svipaður fjöldi við Hafursárjökul.
Um tugur skjálfta mældist í Torfajökulsöskjunni.

Hálendið

Á hálendinu var fremur rólegt í þessari viku. Í nágrenni Herðubreiðar mældust 16 smáskjálftar og tveir austan Öskju. Aðeins 13 jarðskjálftar mældust undir Vatnajökli, þar af sjö við Kistufell og þrír við Hamarinn, allir innan við Ml 2 að stærð. Sjö smáskjálftar voru staðsettir norðvestan Tungnafellsjökuls, sex þriðjudaginn 5. júní og einn 7. júní. Þrír smáskjálftar mældust suðaustan í Tungnafellsjökli 10. júní. Tveir skjálftar mældust sunnan Langjökuls.

Norðurland

Í Tjörnesbrotabeltinu mældust um 60 jarðskjálftar. Yfir tuttugu voru staðsettir í Öxarfirði og um 15 í Skjálfandaflóa. Nokkrir skjálftar mældust á svæðinu kringum Grímsey. Stærsti skjálftinn var Ml 2,2 að stærð með upptök austan Flateyjar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert