Stórútkall af völdum tóbaksstubba

Slökkvilið Dalabyggðar var kallað út í gærkvöldi vegna reyks frá …
Slökkvilið Dalabyggðar var kallað út í gærkvöldi vegna reyks frá Dvalarheimilinu að Fellsenda. Í ljós kom að kveiknað hafði í sígarettustubbum í þurru niðurfalli. Slökkt var í eldinum með vatnsfötu. mbl.is/Golli

Slökkvilið Dalabyggðar var kallað út laust fyrir klukkan 21 í gærkvöldi að Dvalarheimilinu  Fellsenda í Miðdölum þar sem tilkynnt hafði verið um reyk sem lagði undan þakkassa á húsinu. Allt tiltækt lið slökkviliðs Dalabyggðar ásamt lögreglu og sjúkraliði fór á staðinn og var komið þangað skömmu síðar. Frá þessu er greint á vefsíðunni Búðardalur.is.

Þar kemur fram að 26 heimilismenn búi á Fellsenda og þess vegna var viðbúnaður töluverður.

Gekk illa að finna reykinn

Þegar slökkvilið kom á staðinn sást enginn reykur, en þó fannst reykjarlykt. Töluverðan tíma mun hafa tekið að finna upptök reyksins, en í ljós kom að lokum að reykinn lagði upp um þakrennurör á framhlið hússins. Ástæðan var þurrt niðurfall á bak við aðalbyggingu hússins þar sem aðstaða er fyrir reykingafólk á dvalarheimilinu.

Niðurfallið var fullt af vindlingastubbum og sökum rigningarleysis var þar mjög þurrt og því átti eldur í enn einum vindlingnum sem bættist í safnið greiða leið í aðra með fyrrgreindum afleiðingum.

Reykurinn kæfður með vatnsfötu

„Þar sem niðurfallið við reykingaaðstöðuna er tengt þakrennukerfi hússins fór reykurinn og lyktin eftir þakrennukerfinu og villti því aðeins um fyrir slökkviliðsmönnum í upphafi. Slökkviliðsmenn skoluðu síðan úr niðurfallinu með vatnsfötu og var reykurinn kæfður.

Þess má geta að um er að ræða annað útkallið hjá slökkviliði Dalabyggðar á skömmum tíma þar sem einungis vatnsfata er notuð við slökkvistarf en hún mun einnig hafa verið notuð þegar kviknaði í sinu á Laxárdalsheiði nú fyrir skömmu,“ segir í frétt um málið á budardalur.is frá því í gærkvöldi.

Mikill viðbúnaður var vegna útkallsins. Auk slökkviliðs fór lögregla og …
Mikill viðbúnaður var vegna útkallsins. Auk slökkviliðs fór lögregla og sjúkralið á staðinn, en þar búa 26 manns. mbl.is/Hjörtur
mbl.is