„Treystum ekki ríkisstjórninni“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins. Kristinn Ingvarsson

Þingfundi á Alþingi hefur verið frestað til morguns en fundinum hefur ítrekað verið frestað í dag og í kvöld. Hlé hefur verið gert á viðræðum formanna og þingflokksformanna en þeir hafa fundað stöðugt innan veggja þinghússins um hvenær Alþingi eigi að hætta störfum. 

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, útilokar ekki að niðurstaða fáist í málið fljótlega. „Það ætti ekki að þurfa að vera langt í land vegna þess að í stjórnarflokkunum og í stjórnarandstöðunni er fólk sem að vill gjarnan ná sem mestri sátt með þetta mál og leysa það til framtíðar. Þannig að ríkissjóður hafi sem mestar tekjur af sjávarútveginum en jafnframt verði stöðugleiki fyrir greinina,“ segir Sigmundur Davíð. 

Telur hann því þingmenn stjórnar og -andstöðu geta náð saman um þetta atriði.

Hins vegar segir hann álitamál vera um hvaða skref eigi að taka næst. „Það virðast vera skiptar skoðanir innan stjórnarliðsins um hvað sé ásættanleg niðurstaða. Þá höfum við framsóknarmenn viljað að sú vinna sem hefur farið fram undanfarnar vikur fari ekki til spillis ef menn ná ekki að klára málin núna,“ segir Sigmundur Davíð.

En framsóknarmenn töldu að hægt hefði verið að klára bæði veiðigjaldið og breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Verði það ekki hægt, leggur Sigmundur Davíð megináherslu á að sú vinna fari ekki til spillis og að tekinn verði upp þráðurinn þar sem frá var horfið.

„En við viljum að gengið sé frá því skriflega, vegna þess að við treystum ekki ríkisstjórninni í ljósi reynslu undanfarinna ára.“

Er því gert ráð fyrir áframhaldandi fundi á Alþingi á morgun.

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, slítur fundi í kvöld.
Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, slítur fundi í kvöld. Mbl.is/Ómar
Alþingishúsið við Austurvöll
Alþingishúsið við Austurvöll Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert