Stórir og smáir hundar í sátt og samlyndi

„Hundar þurfa þjálfun í að umgangast hunda af mismunandi tegundum, það getur komið í veg fyrir árekstra á milli hunda og árásir. Það er svo misjafnt hvernig hundar líta út og hvernig þeir tjá sig og það getur verið erfitt fyrir hund að lesa í hegðun hunds af annarri tegund.“

Þetta segir Ingibjörg Svana Runólfsdóttir, hundaræktandi og hundaeigandi, sem reglulega stundar svokallaða umhverfisþjálfum með hundunum sínum tveimur, sem eru amerískur cocker-spaniel og chow-chow,  öðrum hundum og eigendum þeirra.

Þar koma saman hundar ólíkra tegunda, af öllum stærðum og gerðum og ganga saman í sátt og samlyndi.

„Hundar geta hreinlega orðið hræddir þegar þeir hitta hunda af tegund sem þeir ekki þekkja og hræddur hundur er hættulegur hundur,“ segir Svana. „Umhverfisþjálfunin felst í því að auka þennan þátt í uppeldi hunda og líka að þeir læri á umhverfishljóð, eins og t.d. bílflaut og hljóð sem fylgja umferð.“

„Sumir hundar eru ekki vanir að sjá stóra hunda, eða hund sem er með feld ofan í augu. Svo hegða hundar sér á mismunandi hátt þegar þeir hitta aðra hunda; sumir setja upp kamb, aðrir tjá sig með skottinu og enn aðrir nota eyrun.“

Svana hefur fengist við uppeldi og ræktun hunda um langt skeið og segir tískusveiflur í því eins og öðru. „Áður var til dæmis algengt að húsvenja hunda með því að láta þá gera þarfir sínar á dagblað, en það gerir varla nokkur maður í dag. Fólk er líka hætt að öskra á hunda heldur er þeim leiðbeint meira en áður. Fólk er líka að átta sig á því hvað umhverfisþjálfun er mikilvæg.“

Hún segir aldrei of seint að byrja á umhverfisþjálfun þó að hundurinn sé kominn af léttasta skeiði og gott sé að byrja á að fara með hann í sem fjölbreyttastar aðstæður, helst í félagsskap hunda af öðrum tegundum. Mikilvægt sér að hundar séu í taumi í umhverfisþjálfun, það sé ávísun á slagsmál að fara með þá nokkra saman út í móa og sleppa þeim lausum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert