Framsókn vildi lágmarka tjónið

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins. Kristinn Ingvarsson

„Við litum svo á að annaðhvort myndi stjórnin keyra áfram með fiskveiðistjórnarfrumvarpið eða einfaldlega leggja fram nýtt frumvarp strax í september, sem hefði getað verið mjög skaðlegt og við ekki í neinni aðstöðu til þess að hafa áhrif á það,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, um ástæður þess að flokkur hans samþykkti þinglok og þar með afgreiðslu veiðigjaldafrumvarpsins í núverandi mynd. Sigmundur Davíð rökstyður þá ákvörðun svo:

„Við litum á það sem hlutverk okkar úr því sem komið var að lágmarka tjónið sem af þessu frumvarpi hlytist. Við höfum verið fylgjandi hækkun veiðigjalds en höfum lagt áherslu á að það mætti ekki vera hærra en svo að sjávarútvegurinn yrði áfram arðbær og að ekki þyrfti að segja upp hundruðum eða þúsundum starfsmanna eins og menn bentu á að hefði líklega fylgt frumvörpunum eins og þau litu út í upphafi.“

Hefðu viljað mat á áhrifunum

- Hvernig getið þið tryggt að þetta hafi ekki neikvæð áhrif á afkomu útgerðarinnar?

„Við hefðum að sjálfsögðu viljað fá mat á því hvaða áhrif þetta veiðigjald, eins og það lítur út núna, hefði haft. Það var hins vegar ekki fallist á það. Í staðinn var hótað beitingu 64. greinar þingskapa til þess að taka málið út úr umræðu.

Þingmenn stjórnarliðsins fóru upp í ræðustól í umræðum og lýstu sig reiðubúna að beita þessu ákvæði. Niðurstaðan var sú að veiðigjaldið var aðeins lagt á til eins árs. Svo verður það endurskoðað af sérfræðinganefnd en auk þess var sett inn varúðarákvæði þess efnis að ef forsendur veiðigjaldsins standast ekki eða það verður aflabrestur eða verðfall á mörkuðum verði veiðigjaldið endurskoðað innan ársins,“ segir Sigmundur Davíð og víkur að frumvarpinu um stjórn fiskveiða.

Varasömustu ákvæðin tekin út

„Svo samþykktu forystumenn stjórnarflokkanna með undirritun að ef það kæmi fram nýtt sjávarútvegsfrumvarp, þ.e.a.s. um stjórn fiskveiða, yrðu ekki í því þau ákvæði sem við og sérfræðingarnir sem fóru yfir málin höfðum helst varað við. Þar nefni ég meðal annars ákvæði sem hefðu dregið enn frekar úr úthlutun aflaheimilda til þeirra sem hafa fjárfest í þeim.

Ef það kemur fram nýtt frumvarp mun það ekki innihalda þau atriði sem við og sérfræðingarnir sem skiluðu inn athugasemdum um gamla frumvarpið töldum varhugaverðust. Auk þess mun vinnuhópur fara yfir hvort hægt sé að ná sameiginlegri niðurstöðu um sjávarútvegsmálin.

Hvað sem kemur út úr því er ljóst að umdeildustu ákvæðin eru komin út og búið að skapa lágmarksstöðugleika um greinina. Jafnframt er ljóst að þær breytingar, ef það kemur nýtt frumvarp næsta haust, munu ekki taka gildi fyrr en fiskveiðiárið 2013/2014. Miðað við þá stöðu sem upp var komin er þetta mjög ásættanlegt en við vildum hins vegar ganga frá þessu öllu skriflega í ljósi reynslunnar af viðræðum við stjórnvöld.“

Staðan metin út frá hættunni

- Er réttlætanlegt að setja á svona veiðigjald til bráðabirgða sem kann að hafa jafn neikvæðar afleiðingar og hagsmunaaðilar halda fram?

„Nei. Auðvitað er það ekki réttlætanlegt. Það er ástæðan fyrir því að við beittum okkur svo mikið og lengi gegn því að það yrði gert, að gjaldið yrði lagt á án þess að búið væri að reikna út afleiðingarnar. Þegar við stóðum frammi fyrir því að vera sagt að þetta færi í gegn á einn eða annan hátt og jafnframt í ljósi hættunnar á því að sjávarútvegsmálin almennt færu í uppnám ákváðum við að fara þessa leið.

Við litum svo á að annaðhvort myndi stjórnin keyra áfram með fiskveiðistjórnarfrumvarpið eða einfaldlega leggja fram nýtt frumvarp strax í september, sem hefði getað verið mjög skaðlegt og við ekki í neinni aðstöðu til þess að hafa áhrif á það. Því töldum við að á heildina litið væri það þess virði að reyna að lágmarka skaðann og ná fram um leið lágmarksstöðugleika um framtíð greinarinnar.“

mbl.is