Einar: „Munum afnema veiðigjaldið“

Einar K. Guðfinnsson.
Einar K. Guðfinnsson. mbl.is/ÞÖK

„Við munum afnema nýju lögin um veiðigjald þegar við komumst í ríkisstjórn. Þrátt fyrir breytingartillögur eru ákvæði laganna ofviða útgerðinni og munu þess vegna hafa alvarlegar afleiðingar,“ segir Einar K. Guðfinnsson, annar tveggja þingmanna Sjálfstæðisflokksins í atvinnuveganefnd, um nýju veiðigjaldalögin. 

„Við höfum fallist á að sjávarútvegurinn greiði gjald, veiðigjald, og stóðum að slíkri lagasetningu fyrir um áratug. Við teljum hins vegar að þarna sé gengið langt fram úr hófi og að gjöldin muni stórskaða útgerðina og þar með almannahagsmuni í landinu,“ segir Einar og víkur að fundi atvinnuveganefndar í morgun.

„Við í minnihlutanum lýstum yfir andstöðu við frumvarpið á fundi atvinnveganefndar í morgun og áréttuðum það í áliti okkar. Það hafa verið uppi hugmyndir um að breyta því hvernig staðið verður að því að greiða með aflaheimildum í svokallaða millifærslupotta.

Sá ágreiningur kom upp í nefndinni í morgun og tafði störfin. En meirihlutinn lagði fram tillögu og afgreiddi málið út úr nefndinni.“

Forsendurnar ekki til staðar

Einar telur einsýnt að veiðigjaldið verði lækkað við fyrirhugaða endurskoðun þess á næsta fiskveiðiári.

„Meirihlutinn viðurkennir að forsendan fyrir þeirri stighækkandi prósentuálagningu sem á að taka gildi fiskveiðiárið 2013/2014,  sé ekki til staðar. Meirihlutinn hefur jafnframt gert breytingatillögu um það að veiðigjaldanefnd eigi að fara ofan í saumana á málinu og leggja fram tillögur að breytingum. Í því hlýtur að felast lækkun á gjaldinu og gjörbreyting  á forsendum þess.

Þannig að ég lít nú svo á að þessar prósentutölur séu einhvers konar merkingarlítið skraut utan um þetta meingallaða lagaverk. Það er alveg ljóst að 20 milljarða veiðigjald fiskveiðiárið 2016/2017 er út úr öllu korti og myndi gera meira en að þurrka upp allan hagnað í sjávarútvegi,“ segir Einar K. Guðfinnson.

mbl.is