Bauð fram sátt

Anna Kristín Ólafsdóttir, Þórunn Guðmundsdóttir og Einar Karl Hallvarðsson.
Anna Kristín Ólafsdóttir, Þórunn Guðmundsdóttir og Einar Karl Hallvarðsson. Morgunblaðið/Golli

Ríkislögmaður bauð Önnu Kristínu Ólafsdóttur til formlegra sáttaumleitana vegna kæru hennar á hendur ríkinu. Þetta sýnir bréf ríkislögmanns til lögmanns Önnu Kristínar sem Fréttablaðið hefur undir höndum.

Anna kærði íslenska ríkið fyrir brot á jafnréttislögum, en úrskurðarnefnd jafnréttismála hafði úrskurðað Jóhönnu Sigurðardóttur brotlega við lögin vegna ráðningar skrifstofustjóra í forsætisráðuneytinu. Anna var einn umsækjenda, en karlmaður var ráðinn í starfið.

Héraðsdómur dæmdi ríkið fyrr í vikunni til þess að greiða Önnu miskabætur vegna málsins. Í yfirlýsingu í gær sagði Anna Kristín það alrangt að Jóhanna hefði sýnt sáttavilja í málinu, eins og ráðuneytið hélt fram í yfirlýsingu í fyrradag. „Hvorki fyrr né síðar hefur hún haft samband við mig vegna málsins eða komið til mín skilaboðum um vilja hennar til sátta.“

Jóhanna skrifar grein um málið í Fréttablaðið í dag. Þar segir hún að frá upphafi hafi hennar sjónarmið verið að leita allra leiða til sátta svo ekki þyrfti að fara fyrir dómstóla. Hún biður Önnu jafnframt velvirðingar á þeim miska sem málið kunni að hafa valdið henni.

Fréttablaðið hefur undir höndum bréf ríkislögmanns til Þórunnar Guðmundsdóttur, lögmanns Önnu Kristínar, þar sem fram kemur að Jóhanna hafi óskað eftir því við ríkislögmann að hann hæfi formlegar sáttaumleitanir. Önnu var boðið til viðræðna um greiðslu miskabóta.

Í bréfi frá lögmanni Önnu til ríkislögmanns stendur að hún væri reiðubúin að ljúka málinu með sátt, og vildi fimm milljónir króna „fyrir fébætur og miska“. Ráðuneytið vildi ekki borga skaðabætur fyrir fjártjón, en ítrekaði í öðru bréfi boð um greiðslu hæfilegra miskabóta, samkvæmt frétt Fréttablaðsins um málið í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina