Fimmburameðgangan „alveg einstakt“ tilvik

Guðmundur Arason frjósemislæknir segir fimmburameðgöngu afar sjaldgæfa aukaverkun tæknisæðingar.
Guðmundur Arason frjósemislæknir segir fimmburameðgöngu afar sjaldgæfa aukaverkun tæknisæðingar. mbl.is/Arnaldur

„Þetta er alveg einstakt,“ segir Guðmundur Arason, frjósemislæknir hjá Art Medica, um konu sem varð ófrísk að fimmburum eftir að hafa undirgengist tæknisæðingu hjá læknastöðinni. Um er að ræða fyrstu fimmburameðgönguna á Íslandi.

Greint er frá málinu í Fréttatímanum í dag. Konan og eiginmaður hennar vilja ekki koma fram undir nafni en þeirra bíður erfið ákvörðun: Læknar ráðleggja þeim að fækka fóstrunum í tvö til að auka lífslíkur þeirra. Konan, sem er komin tæpa þrjá mánuði á leið, fer í sónar í næstu viku og í kjölfarið ætla þau hjónin að taka ákvörðun.

Í viðtalinu segir konan að rannsóknir hafi leitt í ljós, áður en tæknisæðingin fór fram, að tvö egg hefðu losnað en konunni höfðu verið gefin hormón til að örva vöxt og þroska eggbúa. Tvö önnur egg hefðu sést sem væru ekki þroskuð. 

Guðmundur segir að konan, líkt og allar aðrar sem fara í tæknisæðingu, hafi farið í sónar til að athuga með þroska eggjanna. Sónarskoðanirnar séu framkvæmdar reglulega. „Það er í raun og veru ómögulegt að segja hvað hefur gerst. Eggin sem við töldum óþroskuð hafa losnað líka,“ segir hann. Hvað fimmta eggið varðar getur verið að það hafi einfaldlega ekki sést en einnig sé sá möguleiki í stöðunni að eitt eggjanna hafi skipt sér og því sé þar um að ræða eineggja tvíbura. „Það er þó ólíklegt og ég geng ekki út frá því. Þetta er allt frekar  óljóst.“

Spurður hvort vinnulag stofunnar, þar sem framkvæmdar hafa verið mörg þúsund tæknisæðingar, verði endurskoðað í kjölfar þessa segir Guðmundur að þótt tæknisæðingar hafi aldrei áður leitt til fimmburameðgöngu á stofunni verði starfsmennirnir að vera betur á varðbergi. „Þetta er sjaldgæf aukaverkun en þetta getur gerst og við verðum að læra af þessu. Við höfum alltaf vitað af þessum möguleika og passað okkur en þetta getur alltaf læðst aftan að manni.“

mbl.is