Fyrsta fimmburameðgangan á Íslandi

Í fyrsta skipti hér á landi á kona von á fimmburum og er hún komin hátt í þrjá mánuði á leið. Læknar ráðleggja henni og eiginmanni hennar að fækka fóstrunum í tvö. Þetta kemur fram í Fréttatímanum sem kom út í dag.

Hjónin, sem eru á þrítugsaldri, vilja ekki koma fram undir nafni vegna þessarar erfiðu ákvörðunar sem þau þurfa að taka en konan varð þunguð eftir að hafa gengist undir tæknisæðingu í Art Medica.

Konan missti fóstur fyrir rúmu ári og reyndist það þeim hjónum mjög erfitt. Hún segist ekki vita hvort hún þori að taka þá áhættu sem fylgi því að fækka fóstrunum eftir að hafa lesið fjölmargar frásagnir um fimmburameðgöngur sem gangi vel og börnin fæðist heilbrigð. „Á hinn bóginn vil ég að sjálfsögðu gera allt sem í mínu valdi stendur til að tryggja lífslíkur barnanna þannig að við hjónin stöndum frammi fyrir afar erfiðri ákvörðun,“ segir konan í viðtalinu.

Hulda Hjartardóttir, yfirlæknir á kvennadeild Landspítalans, segir í samtali við Fréttatímann að fækkun á fóstrum feli í sér um 5% áhættu á fósturláti fyrir þau fóstur sem eftir eru. Hætta á fósturláti í fimmburameðgöngu sé aftur á móti meiri en 5%. Þegar eyða á fóstrum séu þau fyrst og fremst valin út frá því hver séu aðgengilegust, auk þess hvort einhver þroskist hægar eða séu minni en hin.

mbl.is