Sáttur við hraðann á ferlinu

Štefan Füle, stækkunarstjóri Evrópusambandsins, og Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra.
Štefan Füle, stækkunarstjóri Evrópusambandsins, og Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra. mbl.is

„Ég er mjög ánægður með þann góða árangur sem Ísland hefur náð til þessa á leið sinni inn í Evrópusambandið. Það er ljóst að inngangan er erfitt ferli og hraði þess byggist á því hversu vel Íslandi tekst að sýna fram á að það geti að lokum undirbúið sig fyrir aðild að sambandinu á öllum sviðum,“ sagði Štefan Füle, stækkunarstjóri Evrópusambandsins, á blaðamannafundi í Brussel dag þar sem þrír nýir samningskaflar í aðildarviðræðum Íslands og sambandsins voru opnaðir.

Füle sagði hraðann á aðildarferlinu vera góðan í tilfelli Íslands en um væri að ræða hraðasta ferlið frá árinu 2006 þegar nýtt fyrirkomulag var tekið upp í tengslum við stækkun Evrópusambandsins. Hann minnti á að viðræður væru nú að hefjast um samningskafla sem fælu í sér meiri áskoranir. „Ég er sannfærður um að með áframhaldandi góðri samvinnu munum við geta tekist á við þær áskoranir sem framundan eru og sótt fram í átt að sameiginlegu markmiði okkar.“

Þá sagði Füle mikilvægt að fólk gerði sér grein fyrir því að aðildarviðræðurnar snerust ekki aðeins um það hvernig taka ætti upp löggjöf Evrópusambandsins heldur einnig um það að auka skilning á milli sambandsins og Íslendinga á því sem máli skipti, lykilhagsmunum hvors annars og þörfum þeirra. „Slíkur skilningur er nauðsynlegur til þess að gera okkur mögulegt að taka íslenska sérhagsmuni inn í myndina á sama tíma og meginreglur Evrópusambandsins eru virtar.“

Til þess að ná því markmiði væri mikilvægt að viðhalda og leggja rækt við umræðuna á Íslandi um aðild að Evrópusambandinu og gera fólki kleift að taka upplýsta afstöðu. Að lokum væri það Íslendinga að ákveða hvort þeir vildu ganga í sambandið.

Fréttatilkynning Evrópusambandsins

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert