Dæmdur í 18 mánaða fangelsi fyrir fjárdrátt

Gestur Jónsson, Haukur Þór Haraldsson, skjólstæðingur hans, og Almar Þór …
Gestur Jónsson, Haukur Þór Haraldsson, skjólstæðingur hans, og Almar Þór Möller, aðstoðarmaður Gests. mbl.is

Haukur Þór Haraldsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá Landsbankanum, var í dag dæmdur í átján mánaða fangelsi fyrir fjárdrátt. Þetta er í þriðja sinn sem Héraðsdómur Reykjavíkur dæmir í máli Hauks, en tvisvar sinnum hefur Hæstiréttur ógilt dóminn og vísað málinu aftur til efnismeðferðar í héraðsdómi. Haukur var sýknaður eftir fyrstu meðferð málsins í héraðsdómi, en dæmdur í tveggja ára fangelsi í annað skiptið.

Í málinu var Haukur Þór Haraldsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Landsbankans, ákærður fyrir að hafa dregið sér 118.544.950 krónur, sem hann lét millifæra af innlendum gjaldeyrisreikningi í eigu NBI Holding Ltd., félags á vegum bankans, yfir á eigin bankareikning. Daginn eftir lét Haukur svo millifæra sömu fjárhæð yfir á annan bankareikning í sinni eigu.

Á sér langan aðdraganda

Málið á sér langan aðdraganda, en upphaf málsins má rekja til bréfs sem skilanefnd Landsbanka Íslands hf. ritaði efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjóra þann 26. nóvember 2008. Í því kom m.a. fram að skilanefndin „sæi sig tilneydda til þess að beina því til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra að rannsaka millifærslur sem væru að mati bankans óeðlilegar“. Eftir rannsókn lögreglu var ákæra gefin út, en Haukur hélt því ávallt fram að hann hafi ekki ætlað að slá eign sinni á féð, heldur koma því í öruggt skjól.

Vildi bjarga fjármunum

Haukur kvað ástæðu millfærslunnar vera þá að mikið umrót hefði verið á fjármálamörkuðum á þessum tíma. Ýmsir, þ.á m. Fjármálaeftirlitið hefðu velt því fyrir sér á þessum tíma að skipta kröfum upp í innlendar og erlendar kröfur. Með því að millifæra peninginn af gjaldeyrisreikningi í eigu NBI Holding Ltd. yfir á sinn eigin bankareikning, hefði hann verið að koma þeim fjármunum sem honum var trúað fyrir, yfir í „öruggt“ hólf.

Hauki var gert að greiða þriðjung málsvarnarlauna verjanda síns, Gests Jónssonar hrl., en afgangur verður greiddur úr ríkissjóði. Málsvarnarlaunin voru að upphæð 6.000.000 krónur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert