Fréttaskýring: Rekstrargrundvöllur brostinn að óbreyttu

Ráðstefnu og tónlistarhúsið Harpa við Reykjavíkurhöfn
Ráðstefnu og tónlistarhúsið Harpa við Reykjavíkurhöfn mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Pétur J. Eiríksson, stjórnarformaður tónlistar- og ráðstefnuhússins Hörpu, segir rekstrargrundvöll starfseminnar brostinn ef sú niðurstaða yfirfasteignamatsnefndar stendur, að fasteignamat hússins sé 17 milljarðar króna. Það þýðir að árleg fasteignagjöld af húsinu eru 337 milljónir króna.

„Þetta eru það háar upphæðir að reksturinn yrði óraunhæfur. Tekjur Hörpu eru 680 milljónir á ári. Launakostnaður er 20 milljónir á mánuði og þó við myndum loka húsinu hluta úr viku værum við einungis að spara smápeninga.“

Forsvarsmenn Hörpu höfðu gert ráð fyrir að ákvörðun um fasteignamat yrði byggð á svonefndri tekjuaðferð sem byggir á tekjum af útleigu í húsinu sem hefði þýtt að fasteignagjöld hefðu í mesta lagi verið 160 milljónir á ári.

„Við metum Hörpu sem atvinnuhúsnæði líkt og Smáralind og Kringlan þar sem um er að ræða sjálfbæran rekstur sem byggist á sjálfsaflafé en ekki á rekstrarstyrkjum,“ segir Pétur.

Breyting á rekstrarformi?

Hann segir nokkrar leiðir færar ef ákvörðun um fasteignagjöld stendur óhögguð. „Einn möguleiki er að eigendurnir taki húsið til sín og leigi rekstrarfélagi Hörpu gegn viðráðanlegu gjaldi. Síðan er sá möguleiki að veita rekstrarstyrki en það myndi ganga gegn núverandi eigendastefnu sem byggir á sjálfbærum rekstri.“

Pétur segir slæmt ef skattlagning sé með þeim hætti að erfitt sé að reka hús sambærilegt við Hörpu.

„Stjórnvöld ættu að gæta meðalhófs því þau vita að með þessu er verið að setja rekstur hússins í hættu. Það er sorgleg ef skattkerfið á að vera þannig að ekki sé hægt að byggja upp fyrsta flokks aðstöðu eins og þessa í landinu.“

Pétur segir að forsvarsmenn Hörpu hafi verið meðvitaðir um þann möguleika að þessi staða gæti komið upp. „Við vissum af hættunni en ákváðum að bíða og sjá því við töldum líkurnar vera með okkur," segir Pétur. „Ráðgjafar okkar töldu að allar líkur væru á því að farið yrði eftir tekjuaðferð við útreikning fasteignamats og því kom ákvörðunin okkur á óvart.“

Brúað með lántökum

Rekstraráætlanir Hörpu gerðu ráð fyrir 120-160 milljónum í fasteignagjöld og mismunurinn hefur verið brúaður með lántökum frá því í nóvember. „Það eru ekki góðir stjórnunarhættir að fjármagna skatta með lántökum til lengri tíma,“ segir Pétur og ítrekar að ekki sé möguleiki að reka húsið með óbreyttum hætti ef ákvörðun um fasteignagjöld stendur óhögguð.

Pétur útilokar ekki að leitað verði til dómstóla. Nú sé verið að afla lögfræðiálits um hvort það sé fýsilegur kostur og hvort mögulegt sé að reikna fasteignamat Hörpu með öðrum aðferðum en yfirfasteignamatsnefnd gerði.

„Við fylgjumst með þessu máli. Nú er verið að vinna rekstrargreiningu á öllum þáttum starfsemi Hörpu að beiðni borgarinnar og við förum yfir málið í heild sinni þegar henni er lokið,“ segir S. Björn Blöndal aðstoðarmaður Jóns Gnarr borgarstjóra.

Þess má geta að samtals greiða ríki og borg tæpan milljarð í afborganir og vexti af láni sem tekið var til byggingar Hörpu. Samkvæmt fjárhagsáætlun greiðir borgin 483 milljónir vegna lánsins í ár. Fasteignagjöldin sem borgin innheimtir nú nema eins og áður segir tæpum 340 milljónum eða um 70% af árlegum útgjöldum borgarinnar vegna lánsins.

Gæta jafnræðis

„Við erum með þrjár aðferðir til að reikna fasteignamat, markaðsmat sem byggist á kaupsamningum, tekjumat sem byggist á leigusamningum og kostnaðarmat sem byggist á byggingakostnaði. Í sjálfu sér á niðurstaðan að vera sambærileg burtséð frá því hvaða aðferð er notuð. Tekjumatsaðferðin er notuð þegar fyrirliggjandi er virkur leigumarkaður og upplýsingar um meðalleigutekjur hliðstæðra fasteigna,“ segir Margrét Hauksdóttir. aðstoðarforstjóri Þjóðskrár. „Í úrskurðinum kemur fram að ef farið hefði verið eftir tekjumatsaðferðinni hefði matið verið nálægt 18 milljörðum, við megum ekki líta á leigutekjur einstaks mannvirkis, við verðum að byggja á meðalleigutekjum fyrir sambærilegar byggingar til að gæta jafnræðis meðal fasteignaeigenda.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »