Sorplöggur ráðnar í Reykjavík

Gísli Marteinn Baldursson.
Gísli Marteinn Baldursson.

Meirihluti Besta flokksins og Samfylkingarinnar í Reykjavík ætlar að ráða sorplöggur til að athuga hverju borgarbúar henda í ruslatunnur. Þetta segir Gísli Marteinn Baldursson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks. Umhverfis- og samgönguráð hafnaði tillögu hans um söfnun endurvinnsluefna við heimili.

Gísli Marteinn skrifar pistil á vefsvæði sitt þar sem hann segist, ásamt Áslaugu Friðriksdóttur, hafa lagt fram eftirfarandi tillögu á fundi umhverfis- og samgönguráðs í dag: „Lagt er til að Reykjavík hefji eins fljótt og auðið er söfnun endurvinnsluefna við heimili, þar á meðal plasti. Tilboða verði leitað í þessa þjónustu, og söfnun geti hafist á haustmánuðum.“

Hann skýrir það út að í tillögunni felist að heimili í Reykjavík komist jafnfætis fjölda heimila á landsbyggðinni sem flokka heimilisúrgang og koma honum þannig í endurvinnslu. Gísli segir að til standi að breyta endurvinnslu í Reykjavík, og því hefði verið kjörið að bjóða heimilunum í borginni að flokka allt sorp, bæði pappír og plast, og selja svo efnið sem dýrmætt hráefni.

Ætla að urða plast áfram í Álfsnesi

„En meirihlutinn felldi tillögu okkar Áslaugar um aukna endurvinnslu og ætlar að halda áfram að urða plast uppi í Álfsnesi. Til að tryggja að enginn hendi pappír í svörtu tunnuna, ætlar meirihlutinn hinsvegar að ráða nýja borgarstarfsmenn, sérstakar sorplöggur sem munu athuga hverju við hendum í tunnurnar!“

Í kjölfar þess að tillagan var felld létu Gísli og Áslaug bóka, að óskiljanlegt sé af hverju Samfylkingin og Besti flokkurinn þori ekki að taka skref inn í framtíðina með söfnun á plasti, rétt eins og öðrum endurvinnsluefnum. „Ekkert er því til fyrirstöðu að hefja slíka söfnun þegar í haust, nema metnaðarleysi meirihlutans. Afstaða þeirra er því bæði sorgleg og skaðleg fyrir umhverfið enda ljóst að plast verður áfram grafið í jörð í Álfsnesi, í stað þess að selja það til endurvinnslu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert