Fréttaskýring: Liggur samningsafstaðan fyrir?

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra.
Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra. Ljósmynd/Europa.eu

„Ísland verður reiðubúið að uppfylla niðurstöður viðræðnanna,“ sagði Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, á blaðamannafundi í Brussel síðastliðinn föstudag spurður að því hvort Íslendingar væru reiðubúnir að opna efnahagslögsögu sína fyrir sjómönnum frá Evrópusambandinu í viðræðum um inngöngu í sambandið. Össur svaraði spurningunni þannig hvorki játandi né neitandi en sagði erfitt fyrir hann sem stjórnmálamann að svara spurningu sem byggðist á tilgátu.

Össur sagði ennfremur að fyrst þyrfti að hefja viðræðurnar um sjávarútvegsmálin og takast á við vandamálin í þeim efnum og út úr því kæmi samkomulag sem Ísland myndi fara eftir. Hann lagði ennfremur áherslu á að sjávarútvegsmálin yrðu „erfitt vandamál“ og að viðræður um þau myndu taka tíma. Því þyrfti að hefjast handa sem fyrst við að takast á við þær. Össur tók þó fram að hann stefndi ekki að undanþágum (e. derogations) í þeim efnum. Hins vegar hefði sambandið alltaf sýnt hugkvæmni í því að finna klæðskerasaumaðar sérlausnir fyrir umsóknarríki. Þá sagði Össur fyrr á blaðamannafundinum að aðildarferlið yrði að byggjast á löggjöf Evrópusambandsins og engu öðru.

Voru ummæli Össurar slitin úr samhengi?

Össur sagði ennfremur á blaðamannafundinum að íslensk stjórnvöld væru reiðubúin að leggja fram samningsafstöðu sína í sjávarútvegsmálum eins og mbl.is hefur áður fjallað um. Fram kom í hádegisfréttum Bylgjunnar síðastliðinn mánudag að líklega hefðu orð Össurar verið slitin úr samhengi í frétt evrópsku fréttaveitunnar Agence Europe sem mbl.is vísaði til en í frásögn hennar síðastliðinn föstudag kom meðal annars fram að ráðherrann hefði sagt á blaðamannafundinum að samningsafstaðan í sjávarútvegsmálum væri tilbúin.

Í frétt Bylgjunnar kom jafnframt fram að hugsanlega hefði í frétt Agence Europe verið átt við samningsmarkmiðin í ályktun meirihluta utanríkismálanefndar Alþingis sem fylgt hefði þingsályktunartillögunni um að sótt yrði um inngöngu í Evrópusambandið í júlí 2009 og lengi legið fyrir. Össur sagði við Bylgjuna að vinna við samningsafstöðuna væri enn í gangi en að sú vinna væri þó tiltölulega langt komin. Hann vissi þó ekki nákvæmlega hvenær henni yrði lokið.

Myndskeið frá fundinum á heimasíðu ESB

Ummæli Össurar á blaðamannafundinum verða þó vart skilin öðruvísi en svo að samningsafstaðan í sjávarútvegsmálum hafi þá verið tilbúin og ekkert að vanbúnaði að leggja hana fram. Á heimasíðu Evrópusambandsins er að finna myndskeið frá fundinum þar sem hlýða má á ummæli Össurar en þau voru hluti af svari við fyrirspurn erlends blaðamanns um sjávarútvegsmálin í tengslum við umsókn Íslands og þann árangur sem náðst hefði í þeim málaflokki (sjá hér að neðan, spurning blaðamannsins og síðan svar Össurar hefst á 10:50).

„En sá árangur sem ég vísaði til er að stöðuskýrsla Evrópusambandsins er á réttri leið. Hún hefur þegar hafið vegferð sína í gegnum stofnanir Evrópusambandsins. Heima á Íslandi höfum við einnig náð verulegum árangri. Ég á við að við erum reiðubúin að leggja fram samningsafstöðu okkar (e. „we stand ready to put forth our negotiating position“) og við iðum í raun í skinninu að klóra yfirborðið á vandamálinu [þ.e. sjávarútvegsmálunum],“ sagði Össur í svari sínu.

Liggur samningsafstaðan í sjávarútvegi fyrir?

Enginn af viðmælendum Morgunblaðsins síðastliðinn mánudag kannaðist við að samningsafstaðan í sjávarútvegsmálum lægi fyrir en þar var rætt við Gunnar Braga Sveinsson, þingflokksformann Framsóknarflokksins sem sæti á í utanríkismálanefnd Alþingis, Kolbein Árnason, formann sjávarútvegshóps í samninganefnd Íslands gagnvart Evrópusambandinu, og Vilhjálm Egilsson sem situr í sjávarútvegshópnum. Hins vegar sagði Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar Alþingis, að vinnu við samningsafstöðuna væri „í raun lokið“ og málið hefði „svo bara þann gang sem það á að fara.“ Reynt var að ná í Össur vegna fréttarinnar en án árangurs.

Þá sagði Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins og nefndarmaður í utanríkismálanefnd Alþingis, í samtali við mbl.is síðastliðinn laugardag að hún furðaði sig á þeim ummælum utanríkisráðherra í Brussel að samningsafstaðan lægi fyrir þar sem hún hefði ekki verið lögð fyrir utanríkismálanefnd þingsins. Össur sagði hins vegar í samtali við Bylgjuna að þegar samningsafstaðan væri tilbúin yrði hún „umsvifalaust“ kynnt nefndinni.

Eftir stendur sú spurning hvort samningsafstaðan í sjávarútvegsmálum liggur fyrir eða ekki. Þá er einnig ósvarað hvers vegna utanríkisráðherra sagði á blaðamannafundinum í Brussel síðastliðinn föstudag að samningsafstaðan lægi fyrir en sagði síðan að svo væri ekki í samtali við Bylgjuna um þremur sólarhringum síðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert