„Lygileg og einstök“ upplifun í hvalaskoðun

Háhyrningarnir rifu í sig hnísu skammt frá orðlausum ferðamönnum í …
Háhyrningarnir rifu í sig hnísu skammt frá orðlausum ferðamönnum í hvalaskoðun. Ljósmynd/Stefán Guðmundsson

„Menn sjá yfirleitt svona aðeins einu sinni á ævinni ef þeir eru heppnir,“ segir Stefán Guðmundsson hjá Gentle Giants í Húsavík sem var með erlenda ferðamenn í hvalaskoðun í gærkvöldi. Báturinn Amma Sigga var á leið í land þegar fimm háhyrningar birtust og rifu í sig hnísu aðeins örfáa metra frá bátnum.  

Stefán segir að háhyrningarnir, tvö fullorðin dýr og þrír kálfar, hafi birst við Fiskiskerið vestur við Víknafjöll. Þeir hafi lónað í rólegheitum undan Vargsnesi, inn og utan við Þyrsklingana, grunnt með ströndinni en horfið síðan í kaf í nokkrar mínútur. „Svo birtist tarfurinn með hnísu í kjaftinum rétt við bátinn, þá hófust mikil læti á yfirborðinu þegar kálfarnir gerðust aðgangsharðir og vildu fá sitt af bráðinni,“ segir Stefán og bætir við að þetta hafi verið einstök sjón. „Ferðamennirnir voru orðlausir og höfðu aldrei á ævinni séð neitt þessu líkt í villtri náttúrunni. Þeir voru allir í einhverju sálarástandi sem menn komast ekki í dagsdaglega og tilfinningarnar voru blendnar eðli málsins samkvæmt en upplifunin alveg lygileg og einstök,“ segir hann og bætir við að allar myndavélar hafi verið á lofti  meðan á þessu stóð.

Hann segir átið hafa tekið tiltölulega fljótt af og síðan dóluðu háhyrningarnir sér áfram inn með ströndinni, „læddust eins og úlfahjörð í leit að næstu bráð inn á milli skerja.“ Skömmu síðar sáust þeir taka sel með sama hætti og hnísuna. „Fuglarnir sáu svo um að ekkert yrði afgangs,“ segir Stefán að lokum.

Háhyrningarnir fóru afar nálægt bátnum Ömmu Siggu.
Háhyrningarnir fóru afar nálægt bátnum Ömmu Siggu. Ljósmynd/Stefán Guðmundsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert