Ótrúlegt að sjá þrautseigju fólks

Herdís Þórisdóttir og Sigrún Knútsdóttir við sundlaugina á Grensásdeild, en …
Herdís Þórisdóttir og Sigrún Knútsdóttir við sundlaugina á Grensásdeild, en hún kemur sér m.a. vel í endurhæfingu eftir mænuskaða. Mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ungur maður rankar við sér í sjúkrarúmi. Síðast man hann eftir sér úti á mótorhjóli. Síðan eru liðnir 16 dagar. Hann var í fullum rétti þegar keyrt var á hann og nú liggur hann á gjörgæslu með fjöláverka, sem algengir eru eftir umferðarslys. Fréttaflutningi af atvikinu lauk þegar ljóst var að hann var úr lífshættu, en þar með er ekki öll sagan sögð.

Umferðarslys umturnar lífinu

Hvað felst í fjöláverkum? Í tilfelli þessa unga manns var um að ræða alvarlegt mjaðmagrindarbrot og handleggsbrot, rof á slagæðum, mikla áverka á húð og taugaskaða í handlegg  með lömun í hægri hendi, ökklabrot með taugaskaða og lömun á ökkla, viðbeinsbrot, kjálkabrot, samfallin lungu og höfuðáverka. Um hálfu ári eftir slysið, eftir fjölda skurðaðgerða, langa dvöl á lýtalækningadeild og þrotlausa endurhæfingu, útskrifaðist ungi maðurinn af Grensásdeild Landspítala og gekk út við hækju. 

„Þessi strákur á allt líf sitt framundan og náði alveg ótrúlegum bata, en hann nær sér aldrei að fullu eins og hann var áður," segir Sigrún Knútsdóttir yfirsjúkraþjálfari á Grensásdeild. Hún hefur um árabil starfað við endurhæfingu og segir það enn koma sér á óvart hve þrautseigja og aðlögunarhæfni fólks geti verið mikil þegar líf þess umturnast vegna slyss. „Það er alveg ótrúlegt. Maður hættir aldrei að dást að því.“

Hátt í 200 alvarleg slys á hverju ári

Árlega verða á bilinu 150-200 alvarleg umferðarslys hér á landi, þar sem ekki hlýst bani af en þeir sem í þeim lenda glíma við afleiðingarnar í langan tíma á eftir og jafnvel ævilangt. Það þýðir að frá aldamótum hafa tæplega 2.000 manns slasast alvarlega í umferðinni. Flestir þeir sem lifa af alvarleg slys og fara í gegnum endurhæfingu á Grensásdeild LSH hafa hlotið fjöláverka, mænuskaða, heilaskaða, taugaáverka eða misst fót.

Sumir eru  lengi á deildinni, frá þremur upp í sex mánuði eða jafnvel lengur. Markmiðið er að fólk verði eins sjálfbjarga og hægt er, eins fljótt og hægt er og komist út í samfélagið aftur. Í mörgum tilfellum verða þeir sem lenda í alvarlegum slysum þó að læra að lifa lífinu við breyttar aðstæður og auk líkamlegrar þjálfunar snýst endurhæfingin því einnig um að sætta sig við breytt hlutskipti. 

Algjör skelfing fyrst í stað

„Þú gerir þér auðvitað enga grein fyrir því í upphafi hvað það þýðir að vakna eftir alvarlegt umferðarslys lamaður, algjörlega ósjálfbjarga og þurfa hjálp við allar athafnir daglegs lífs. Þannig að fyrst í stað getur þetta auðvitað verið algjör skelfing og það tekur tíma að læra á sjálfan sig upp á nýtt," segir Sigrún. 

Fólk tekur áfalli með mismunandi hætti en að sögn Sigrúnar fara flestir í gegnum sorgarferli. „Þér er í raun hent inn í óraunverulegan og hræðilegan heim og fólk er oft í afneitun til að byrja með. Það er ósköp eðlilegt að maður reyni að bægja frá sér því sem er svo ógnvænlegt að þú getur ekki tekist á við það. Fólk fer í gegnum sorg, kvíða, reiði, depurð og loks sátt. Þetta krefst aðlögunar og við förum rólega í sakirnar þegar við byrjum endurhæfinguna."

Fyrstu skrefin alltaf gleðileg

Endurhæfing eftir umferðarslys getur því verið afar langt og strangt ferli. Herdís Þórisdóttir sjúkraþjálfari á Grensásdeild nefnir sem dæmi að fyrir mænuskaðaðan einstakling geti þurft þrotlausar æfingar dag eftir dag í 2-3 mánuði til að ná þeirri grunnfærni að snúa sér á hliðina og setjast upp í rúminu.

„Fyrstu vikurnar hér snúast oft um að þjálfa grunnfærnina, að geta sest upp og sjálfur, komist sjálfur fram úr rúmi og geta sinnt grunnþörfunum. Það getur tekið nokkra mánuði að finna út hver raunveruleg staða viðkomandi er. Smátt og smátt förum við svo að horfa til framtíðar, að hjálpa fólki að breyta lífi sínu og styðja það í að finna nýjar leiðir."

Margir litlir og stórir sigrar eru unnir á Grensásdeild. „Við gleðjumst með fólki yfir öllum framförum, hversu pínulitlar sem þær eru, af því það skiptir máli," segir Herdís. „Það er alltaf mjög gleðilegt að sjá fólk taka fyrstu skrefin. Það er gaman að fylgjast með því. Alveg rosalega gaman." 

Sárast þegar væntingarnar bregðast

Erfiðast er hinsvegar að sögn Herdísar að þurfa að horfast í augu við ef væntingar sem kviknuðu í upphafi endurhæfingar bregðist. t.d. ef um alvarlegan heilaskaða er að ræða. „Við vitum aldrei þegar við leggjum af stað hvar við munum enda og við höfum auðvitað upplifað að ná ekki því sem við ætluðum okkur. Þetta er það erfiðasta sem ég glími við."

Sigrún segir sömu sögu. Óhjákvæmilegt sé að fyllast stundum depurð yfir örlögum fólks. Í endurhæfingunni allri skipti hins vegar mjög miklu máli hvernig fólki tekst að glíma við andlega þáttinn. „Hér á Grensásdeild er mikil áhersla lögð á jákvæðni, bjartsýni og glaðværð. Við verðum að hjálpa fólki að læra að trúa áfram á sjálft sig og að það sjái einhverja von, að lífið sé ekki búið. Oft sjáum við að gildi fólks og áherslur í lífinu breytast,“ segir Sigrún. 

Fræðsla betri en hræðsla

Sigrún og Herdís eru báðar á því að mikilvægt sé að halda umræðu um umferðaröryggi- og slys stöðugt á lofti. Þær telja að fræðsla skili sér betur en hræðsluáróður til að auka meðvitund fólks. Ýmislegt hefur breyst til hins betra að þeirra mati, t.d. hafi dregið úr alvarlegum mænusköðum á allra síðustu árum með almennari notkun bílbelta. 

„Það er þó dapurlegt að enn er það svo að flestir sem fá alvarlega mænuskaða og lamast í umferðarslysum hafa ekki notað bílbelti. Þeir missa stjórn á bílnum, lenda í bílveltu og kastast út úr bílnum vegna þess að þeir voru ekki í belti. Þetta eru því slys sem hefðu ekki þurft að verða svona alvarleg.“

Þær benda einnig á að allt of algengt sé að fólk keyri aðeins of hratt. „Staðreyndin er sú að fólk er iðulega að keyra 10-15 km of hratt. Sumir vegarkaflar þola það alveg en aðrir alls ekki, “ segir Sigrún. Hún telur að breytilegur hámarkshraði þurfi að vera á þjóðvegunum í samræmi við það sem vegurinn þolir á hverjum stað. 

„Þetta kemur ekki fyrir mig“

Svo betur má ef duga skal. Sigrún bendir á að hluti ábyrgðarinnar hvíli á yfirvöldum, t.d. að standa að því að útrýma svörtu blettunum í vegakerfinu og auka sýnileika löggæslu. Annað snúi að okkur sjálfum: Að hafa athyglina á akstrinum, draga úr hraðanum og nota alltaf bílbelti.

„Ég held að það hafi orðið viðhorfsbreyting, en ég held að hún þurfi að verða ennþá meiri. Fólk er ennþá með viðhorfið: „Þetta kemur ekki fyrir mig."," segir Sigrún og segist að lokum vilja óska þess að landsmenn njóti slysalauss sumars og komi heilir heim.

Á morgun...

...verður birt viðtal við unga mótorhjólamanninn sem slasaðist alvarlega eins og lýst var hér að ofan. Ótrúlegt má heita að hann hafi lifað af og náð svo góðum bata sem raunin er, en hann verður aldrei samur og er öryrki m.a. vegna heilaskaða.

Árlega verða á bilinu 150-200 alvarleg umferðarslys sem enda mörg …
Árlega verða á bilinu 150-200 alvarleg umferðarslys sem enda mörg með fjöláverkum, mænuskaða, heilaskaða, taugaáverkum eða útlimamissi. Mbl.is/Elín Esther
Sjúkraþjálfurum á Grensásdeildinni finnst alltaf jafngleðilegt að sjá fólk taka …
Sjúkraþjálfurum á Grensásdeildinni finnst alltaf jafngleðilegt að sjá fólk taka fyrstu skrefin eftir endurhæfingu. Mbl.is/Eggert Jóhannesson
Grensásdeild Landspítalans veitir sérhæfða endurhæfingarþjónustu.
Grensásdeild Landspítalans veitir sérhæfða endurhæfingarþjónustu. Mbl.is/Eggert Jóhannesson
Sjúkraþjálfun á Grensásdeild.
Sjúkraþjálfun á Grensásdeild. Mbl.is/Friðrik Tryggvason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert