Búið að finna Ítalina

Þyrla Landhelgisgæslunnar á flugi við Vatnsnes í dag.
Þyrla Landhelgisgæslunnar á flugi við Vatnsnes í dag. mbl.is/Jón Sigurðsson

Lögreglan á Blönduósi hefur fengið upplýsingar um ítölsku hjónin sem komu auga á ísbjörn við Vatnsnes í gær. Þau hafa pantað gistingu í Stykkishólmi í kvöld og hefur lögreglan í Hólminum verið beðin um að ræða við þau og fá hjá þeim myndir af ísbirninum.

Það voru ítölsk hjón með tvö börn sem voru á ferðalagi við bæinn Geitafell á Vatnsnesi sem sáu dýrið um miðjan dag í gær. Þau komu auga á dýr á sundi sem þau töldu vera ísbjörn. Þau tóku myndir af ísbirninum og myndskeið. Þau héldu síðan áfram ferð sinni, en lögreglan hefur óskað eftir að ræða við þau og skoða myndirnar.

Kristján Þorbjörnsson, yfirlögregluþjónn á Blönduósi, segir að lögreglan hafi fengið upplýsingar um að hjónin hafi pantað gistingu í Stykkishólmi í nótt. Óskað hafi verið eftir að lögreglan í Hólminum ræði við þau og fái afrit af myndunum. Kristján sagði að þessar myndir breyti í sjálfu sér ekki stöðu málsins, en lögregla gangi út frá því að ísbjörn hafi gengið á land á Vatnsnesi. Ekkert hefur hins vegar sést af birninum í dag þrátt fyrir mikla leit.

Þyrla Landhelgisgæslunnar sem leitað hefur af ísbirninum í dag og í gær er komin til Reykjavíkur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert