Frjókorn í fullum krafti

Fíflar blómstra á Arnarhóli í miðbæ Reykjavíkur.
Fíflar blómstra á Arnarhóli í miðbæ Reykjavíkur. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Mesti frjókornatími landsins er að ganga í garð. Frjótölur eru háar á þurrviðrisdögum í Reykjavík og á Akureyri og grasfrjóum fjölgar í mælingum stofnunarinnar í Urriðaholti. Nú eru síðustu forvöð að slá vallarfoxgras áður en það nær að dreifa frjókornum.

Margrét Hallsdóttir, umsjónarmaður frjómælinga hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, segir að algengast sé að grasfrjó valdi frjókornaofnæmi, en einnig þekkist að birkifræ séu ofnæmisvaldar. Margrét segir að fjöldi grasfrjóa í ár sé minni en árið 2010 en svipaður og árið 2008. Þessi þrjú ár, ásamt árinu 2003, eigi það sammerkt að fjöldi grasfrjóa í mælingum hafi farið yfir 10 á rúmmetra þegar seinni partinn í júní, en almennt séð er miðað við að ofnæmis verði einkum vart þegar farið er yfir þann þröskuld, og þá aukist eftirspurn eftir ofnæmislyfjum.

Aðspurð um umræðu undanfarinna daga um grasslátt í Reykjavíkurborg segir Margrét: „Ef það er rétt að það er minna slegið þá hefur það áreiðanlega áhrif, því það er mjög mikið atriði að tún séu slegin áður en grasið kemst á það þroskastig að blómin opnast og frjóhnapparnir koma út, því að þá tekur vindurinn við og fer að dreifa frjókornunum.“

Hins vegar verði líka að hafa í huga að oftast er fleiri en ein grastegund á opnum svæðum og í görðum borgarinnar, og þær blómgast á mismunandi tímum: „Þannig var háliðagrasið sem við þekkjum flest að blómgast og dreifa frjókornum um miðjan júní, en núna sé ég að vallarfoxgrasið er alveg að fara að springa út, og á þeim stöðum er mjög mikilvægt að fara að slá núna, áður en það gerist,“ segir Margrét en frjókornin frá vallarfoxgrasinu eru helsti ofnæmisvakinn hjá þeim sem eru með frjókornaofnæmi.

Grasið blómstrar fyrr í veðurblíðunni

Margrét segir að frjókornin séu fyrr á ferðinni en í venjulegu árferði. Góða veðrið að undanförnu hafi haft þau áhrif að grasið sé að blómstra um tíu dögum fyrr en venjan er. Margrét segir að hún hafi sagt umhverfisnefnd Reykjavíkurborgar í vor að það þyrfti að fylgjast vel með grassprettu í borginni: „Ég sagði á þeim fundi, sem var haldinn að forgöngu Astma -og ofnæmisfélagsins, að það þyrfti fólk með þekkingu til þess að fylgjast með plöntunum á grænu svæðunum og sjá hvenær grösin eru skriðin, því þá þarf að taka fram sláttuvélarnar og fara að slá. Menn hafa þá allt að tvær vikur til þess að bregðast við áður en frjókornin fara að dreifa sér.“

Margrét segir að ofnæmissjúklingar geti gert ýmislegt til þess að hjálpa sér, t.d. eigi þeir sem hlaupi úti að hlaupa frekar meðfram sjónum, þar sem loftið sé minna mettað af frjókornum. Þá er hollráð að hengja ekki þvott til þerris utandyra á meðan mesti frjókornatíminn sé.

Hefja lyfjameðferð strax og fyrstu einkenna verður vart

Davíð Gíslason læknir segir að það sé einkum tvennt sem ofnæmissjúklingar geti gert á þessum tíma. „Fyrra atriðið er að forðast frjókornin, að vera ekki mikið í óslegnu grasi. Ég tala nú ekki um ef að fólk fer í útilegu, að tjalda ekki þar sem mikið gras er, heldur frekar leita að stað þar sem grasið er slegið, eða þá jafnvel tjalda út við sjóinn, en það er þó sísti kosturinn fyrir flesta í útilegum.“

Hitt úrræðið er lyfjameðferð. Davíð segir að allir sem þjáist af ofnæmi ættu að vera á lyfjameðferð núna: „Reyndar ætti fólk að byrja strax taka inn ofnæmislyf þegar einkenni gera vart við sig, reyndar var það nokkuð snemma í júnímánuði í ár. Oft dugir það síðan ekki til, það þarf þá líka bólgueyðandi úða í nefið, því einkennin eru mest í nefi og augum. Það þarf hins vegar lyfseðil fyrir því. Fólk ætti því að sýna fyrirhyggju ef það veit af því að það er með frjókornaofnæmi og leita til læknis áður en ofnæmið hefst. Svo geta menn einnig fengið augndropa án lyfseðils fyrir augun, en það er það eina sem menn geta þá tekið eftir þörfum. Með hin lyfin er orðið of seint að byrja að meðhöndla sig þegar maður er orðinn slæmur, menn þurfa að taka þau að staðaldri yfir mesta gróðurtímann.“

Davíð segir að tíðni frjókornaofnæmis hafi verið að aukast síðastliðna áratugi á Íslandi. Af ungu fólki þjáist ca. 20% af frjókornaofnæmi nú, og hefur sá fjöldi tvöfaldast síðan fyrir tuttugu árum. Almennt séð sé tíðni ofnæmis að aukast á Vesturlöndum og þróunin hér sé í samræmi við það. Margar ástæður séu þar að baki, t.d. skipti aðstæður í uppeldi máli.

Davíð vill beina þeim tilmælum til fólks með gróðurofnæmi að ef það hyggi á ferðalög til útlanda kynni það sér aðstæður í komulandinu svo að það eyðileggi ekki fríið fyrir sér. Frjókorn geri fyrr vart við sig almennt séð í útlöndum en á Íslandi. Því sé betra fyrir fólk að fara frekar t.d. um miðjan júlí til sólarlanda, því þannig losni það við versta tímann hér á landi, sem er þá líklega genginn um garð þar.

Frjókornamælingar birtast daglega á vef Náttúrufræðistofnunar.

Frjókorn í lofti valda mörgum ofnæmissjúklingum vandræðum á vorin.
Frjókorn í lofti valda mörgum ofnæmissjúklingum vandræðum á vorin. mbl.is/Árni Torfason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert