Hlaut að vera ljós tilgangurinn

Wikileaks
Wikileaks AFP

Héraðsdómur Reykjavíkur segir að Valitor hafi hlotið að vera ljós tilgangur DataCell með notkun greiðslugáttar sem sótt var um, þ.e. að safna fjárframlögum fyrir WikiLeaks. Ekki var fallist á að rifta hafi mátt samningnum vegna brostinna eða rangra forsenda. Þetta kemur fram í dómnum sem hefur verið birtur á vef dómstólanna.

Í málinu krafðist DataCell að Valitor yrði gert, að viðlögðum dagsektum að fjárhæð 1.000.000 króna, að opna greiðslugátt samkvæmt samstarfssamningi frá 15. júní 2011. Henni var lokað 8. júlí 2011.

Í tölvupósti Valitor til DataCell: „Valitor hf. hefur ákveðið að segja upp samstarfssamningi milli Valitor og Datacell ehf., dags. 15. júní sl. og samningi um notkun þjónustuvefs Valitor, dags. 30. júní sl., vegna brota á almennum viðskiptaskilmálum söluaðila og þeirrar staðreyndar að alþjóðlegu kortasamsteypurnar heimila ekki þjónustu sem Datacell sinni fyrir hönd Wikileaks og ekki var tilgreind í umsókn. Uppsögnin tekur gildi samstundis.“

Í niðurstöðu dómsins segir að þó svo ekkert hafi komið fram í samningi aðila eða umsókn sem benti til þess að DataCell hafi ætlað að safna fjárframlögum WikiLeaks mátti starfsmönnum Valitor vera það ljóst að DataCell hafði áður tekið þátt í fjársöfnun fyrir WikiLeaks, enda hafi það verið á allra vitorði.

Ekki ósamrýmanlegt viðskiptastefnu

„Þar sem stefnda var ljóst að stefnandi hugðist safna fé fyrir WikiLeaks í gegnum greiðslugáttina, getur hann ekki borið fyrir sig ákvæði skilmálanna um að óheimilt sé að nýta gáttina til viðskipta fyrir annan aðila eða að starfsemi stefnanda hafi breyst,“ segir í dómnum og einnig: „Þar sem talið er að stefnda hafi hlotið að vera ljós tilgangur með notkun greiðslugáttarinnar, er hafnað málsástæðu hans um að stefnandi hafi leynt hann atriðum sem hann hafi vitað að skiptu verulegu máli og að óheiðarlegt sé af stefnanda að bera samninginn fyrir sig.“

Valitor vísaði meðal annars til þess að fyrirtækinu væri óheimilt að taka við framlögum til WikiLeaks en dómurinn taldi þessa fullyrðingu ekki studda neinum gögnum. „Hefur [Valitor] heldur ekki sýnt fram á að móttaka framlaga til WikiLeaks sé ósam­rýmanleg viðskiptastefnu kortafyrirtækja. Verður því ekki fallist á að samningnum hafi mátt rifta vegna brostinna eða rangra forsendna.“

Frestur til að opna greiðslugáttina er 14 dagar frá birtingu dómsins, að viðlögðum dagsektum að fjárhæð 800.000 krónur fyrir hvern dag eftir þann tíma.

Sjá einnig:

Stór dagur fyrir málfrelsið í heiminum

Valitor þarf að opna greiðslugáttina

Blekking í umsókn eða góð trú

Valitor.
Valitor.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert