Lúxushótelið verði opnað 2017

Grímsstaðir á Fjöllum.
Grímsstaðir á Fjöllum.

„Það er ekki búið að skrifa undir samninga en samningsdrög fyrir alla þætti liggja fyrir. Ég veit ekki til þess að það sé neinn ágreiningur um þá þætti. Þetta er langt komið,“ segir Halldór Jóhannsson, arkitekt og talsmaður kínverska fjárfestisins Huang Nubo, um stöðu áforma um hótelbyggingu á Grímsstöðum á Fjöllum.

Halldór segir stefnt að því að undirrita samninga í októberbyrjun. „Við vonumst til að það verði ekki síðar en þá. Samningsdrög er varða öll mál á Íslandi liggja fyrir þannig að framundan er lokafrágangur. Ef ekkert óvænt kemur upp á ætti þetta að geta staðist. Alveg klárlega.“

Opnuninni seinkar um eitt ár

Halldór segir framkvæmdirnar muni taka nokkur misseri.

„Í ívilnunarsamningnum sem verið er að gera við iðnaðarráðuneytið var sótt um framkvæmdaleyfi með það fyrir augum að hótelið gæti verið opnað 2016. Það er komið langt fram á þetta ár þannig að ég býst þá ekki við að það verði hægt að opna það fyrr en 2017. Svo er uppi óvissa sem lýtur að skipulagsmálum. Um leið og grænt ljós liggur fyrir mun fara af stað skipulags- og hönnunarvinna við að skipta landinu upp. Óvíst er hvað það tekur langan tíma. Ég myndi giska á eitt ár en það gæti dregist,“ segir Halldór sem staðfestir að ætlunin sé að reisa tugi glæsilegra frístundahúsa nærri hótelinu.

„Ég geri ráð fyrir því að það verði lóð afmörkuð um hvert hús eins og gengur og gerist í frístundabyggð. Það er ekki búið að hanna byggðina. Sú vinna fer í gang þegar allir endar hafa verið hnýttir. Vonandi verður hægt að hefja undirbúningsframkvæmdir á næsta ári. Síðan gætu framkvæmdir hafist af fullum krafti árið eftir. Það borgar sig ekki að byrja að skipuleggja fyrr en ljóst er hvernig hlutirnir munu ganga. Hugmyndin er að skipta jörðinni upp og að hluti hennar verði skilgreindur sem þjóðgarður eins og Huang hefur lýst yfir að hann vilji að verði gert. Það er ekki fyrr en það ferli er komið langt á veg sem það verður hægt að fara í fínhönnun á hótelinu.“

Sundlaug og gufuböð

Spurður út í þjónustuna við fyrirhugað hótel segir Halldór að ætlunin sé að byggja þar sundlaug með heitum pottum og gufubaði og nýta þannig heitt vatn sem talið er að megi sækja á svæðinu.

Þessi þjónusta verði aðgengileg þeim sem dvelji í fyrirhuguðum frístundahúsum sem og öðrum.

Gengið hefur verið út frá því að hótelið yrði hundrað herbergja og frístundahúsin ígildi jafn margra herbergja. Á álagstímum gætu gestir verið fjögur til sex hundruð auk tvö hundruð manna þjónustuliðs. Alls gætu störfin í kringum þennan rekstur orðið um fjögur hundruð,“ segir Halldór um hin fyrirhuguðu áform.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert