Vilja ógilda forsetakosningar

Guðmundur Magnússon formaður Öryrkjabandalags Íslands.
Guðmundur Magnússon formaður Öryrkjabandalags Íslands. Ómar Óskarsson

„Þetta er áframhaldandi mannréttindabarátta hjá Öryrkjabandalaginu. Auðvitað hefðum við viljað sleppa við að fara þessa leið, við vildum gjarnan að allir væru jafnir á Íslandi í dag, en þannig er það ekki. Því miður,“ segir Guðmundur Magnússon, formaður Öryrkjabandalags Íslands, sem er einn þriggja sem hafa kært kjör forseta Íslands til Hæstaréttar.

Hin tvö eru Ásdís Jenna Ástráðsdóttir og Rúnar Björn Herrera Þorkelsson. Þau kæra þá ákvörðun kjörstjórna að hafa ekki fengið heimild til að njóta hjálpar aðstoðarmanns eða trúnaðarmanns að eigin vali. Þess í stað var þeim gert að merkja kjörseðil með aðstoð eins af kjörstjórnarmönnum í viðeigandi kjördeild. Þeim kjósendum sem ekki féllust á það og kröfðust þess að fá að njóta aðstoðar trúnaðarmanns að eigin vali var meinað að taka þátt í kosningunum.

Kærendur telja að þetta sé andstætt þeim meginreglum sem gildi um frjálsar, óþvingaðar og leynilegar kosningar. Í kærunni er ennfremur bent á að samkvæmt stjórnarskrá sé ákvæði þess efnis að forseti Íslands eigi að vera kjörinn beinum og leynilegum kosningum.

Segja brotið á ýmsum þáttum

Að auki er talið að framkvæmd kosninganna sé brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar, en þar er kveðið á um að allir skuli jafnir fyrir lögum og að þeir skuli njóta mannréttinda án nokkurrar mismununar. Einnig segir þar að brotið hafi verið á friðhelgi einkalífs, skoðana-, sannfæringar- og tjáningarfrelsi og grunnreglu stjórnarskrárinnar um sjálfræði. 

„Þetta er eðlilegt framhald af öryrkjadómnum um aldamótin, sem skipti sköpum fyrir okkur,“ segir Guðmundur. „Þannig að það má segja að þetta sé enn einn leiðarsteinn í okkar vegferð. Við viljum líka leggja áherslu á að það er ekki hægt að lofa endalaust og svíkja það síðan. Það er mikilvægt að segja stopp þegar nóg er komið og þannig er það nú.“

Að sögn Guðmundar stóð til að breyta fyrirkomulagi þeirra sem þurfa aðstoð á kjörstað fyrir kosningarnar til stjórnlagaþingsins. Það hafi ekki gengið eftir, en ráðherra hafi þá sett reglugerð um að allir þeir sem ekki geta kosið eigin hendi geti valið sér aðstoðarmann inn í kjörklefann.

„Við erum að gera kröfu um að það séu raunverulegar leynilegar kosningar, en ekki að valdhafarnir skipi okkur einhverja aðstoðarmenn. Við viljum fá að velja okkur eigin trúnaðarmenn.“

En hvers vegna var ekki hægt að setja áþekka reglugerð fyrir forsetakosningarnar fyrst það var hægt fyrir kosningarnar til stjórnlagaþings? „Stórt er spurt. En við höfum ekki fengið nein svör,“ segir Guðmundur.

Snertir marga og brýtur gegn samþykkt SÞ

Hann segir að málið snerti miklu fleiri en þau þrjú sem standa að kærunni, en erfitt sé að fullyrða um hversu margir það séu. „Það eru ekki bara blindir eða hreyfihamlaðir sem málið snýst um. Það snertir líka þá sem er þroskahamlaðir eða geðfatlaðir á einhvern hátt. Svo eru sumir fatlaðir sem treysta sér illa að vera einir með ókunnugum.“

„Þetta er flókið og víðtækt og mikilvægt að tekið á þessu og ég bendi á að íslensk stjórnvöld hafa undirritað samþykkt Sameinuðu þjóðanna sem kveða á um réttindi fatlaðs fólks. Þar segir meðal annars að fatlaðir skuli eiga sama rétt og aðrir varðandi kosningar og að þeir sem þurfi á því að halda skuli fá að velja sér sína eigin trúnaðarmenn.“

„Nú er þetta bara í höndum Hæstaréttar. Við sjáum til hvað gerist, en auðvitað hefðum við viljað sleppa við að fara þessa leið. Við vildum gjarnan að allir væru jafnir á Íslandi, en þannig er það ekki í dag,“ segir Guðmundur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert