Alda vill styttri vinnudag á Íslandi

Verkamaður við byggingarvinnu í Reykjavík.
Verkamaður við byggingarvinnu í Reykjavík. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Alda, félag um sjálfbærni og lýðræði, sendi nýlega bækling til flestra stéttarfélaga á Íslandi. Í bæklingnum eru reifaðar tillögur Öldu um styttingu vinnudags. Bæklingurinn var einnig sendur til Samtaka atvinnulífsins, Viðskiptaráðs og fleiri.

Í tilkynningu frá Öldu segir að á Íslandi vinni fólk lengur en á Norðurlöndum og einna mest í samanburði við ríki Evrópu. Árið 2010 vann meðal vinnandi maður á Íslandi 23 vinnudögum meira en í Svíþjóð. „Það er næstum því heilt sumarleyfi,“ segir í tilkynningunni. „Auk þess er atvinnuþátttaka hérlendis sú mesta af Norðurlöndum og mjög mikil miðað við önnur Evrópuríki. Alda – félag um sjálfbærni og lýðræði telur nauðsynlegt að stytta vinnudaginn á Íslandi. Víða í Evrópu hefur vinnudagurinn gagngert verið styttur síðastliðna áratugi. Reynslan af því er almennt góð – rétt eins og gildir um styttingu vinnudagsins í gegnum söguna.“

Alda leggur því til að:

  1. Venjuleg vinnuvika verði stytt í 30-32 vinnustundir á tveggja ára tímabili.
  2. Tryggja þarf að aukin framleiðni skili sér í fleiri frístundum hjá vinnandi fólki. Þessu markmiði skal náð fyrir árslok 2015.
  3. Fyrrgreindum markmiðum skal náð þannig að kaupmáttur standi í stað eða aukist.

Bækling Öldu má sjá hér.

mbl.is