Frægðarmenni í kjallara í Kópavogi

Hvað eiga Davíð Stefánsson frá Fagraskógi, ítalski harðstjórinn Mussolini, Sveinn Björnsson, fyrsti forseti Íslands, og Winston Churchill sameiginlegt? Jú, þá er alla að finna í geymslu Þjóðminjasafns Íslands, í kjallara í Kópavogi.

Þessir fjórir og 28 sögufrægar persónur til viðbótar eru uppistaðan í íslenska vaxmyndasafninu, sem Óskar Halldórsson útgerðarmaður frá Siglufirði og börn hans létu gera og færðu Þjóðminjasafninu að gjöf til minningar um Óskar Theodór, son Óskars sem fórst til sjós.

Kiljan var aldrei til sýnis

Reyndar voru vaxmyndirnar upphaflega 33, en ein hefur aldrei verið sýnd opinberlega. Hún var af Halldóri Kiljan Laxness, sem var mikið á móti því að slík mynd yrði gerð af sér og að hún kæmi fyrir almenningssjónir, og síðar brotnaði höfuð hennar við flutning.

Vaxmyndirnar voru gerðar í safni Madame Tussaud í London og voru samfleytt til sýnis í Þjóðminjasafninu árin 1951-1969. Síðan þá hafa þær örsjaldan verið til sýnis og eiga nú samastað á bak við tjöld og í kössum.

Þetta var fyrir tíma pólitískrar rétthugsunar og kynjakvóta, en þarna er einungis ein kona, Anna Borg leikkona. 

Ólafur Thors og Shakespeare

Í virðulegum stólum sitja þeir sem sátu fyrsta ríkisráðsfundinn 17. júní 1944 og Napóleon Bonaparte stendur bísperrtur í fullum skrúða með þolinmæðissvip á andlitinu, sem er reyndar víðsfjarri líkamanum, því það er geymt í kassa.

Af öðrum vaxmyndum má nefna Ólaf Thors, alþingismann og ráðherra, Vilhjálm Stefánsson landkönnuð, William Shakespeare, Adolf Hitler, H.C. Andersen og Franklin Delano Roosevelt Bandaríkjaforseta. Einnig voru gerðar vaxmyndir af feðgunum, þeim Óskari og Óskari Theodóri.

Engar áætlanir um að sýna vaxmyndirnar

Lilja Árnadóttir, fagstjóri munasafns Þjóðminjasafns Íslands, segir að safnið hafi varðveist með ágætum, en þegar það var til sýnis hafi myndirnar skemmst nokkuð því gestir hafi ekki getað látið vera að handfjatla þær. Engar fyrirætlanir eru um að setja safnið upp á næstunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert