Mun reykja kannabis fyrir framan lögregluna

Örvar Geir Geirsson hyggst mótmæla banni stjórnvalda á kannabis-efnum frá …
Örvar Geir Geirsson hyggst mótmæla banni stjórnvalda á kannabis-efnum frá og með 1. ágúst nk. mbl.is

Örvar Geir Geirsson, talsmaður RVK Homegrown, samtaka sem vilja afglæpun kannabis-neyslu, hyggst mótmæla íslenskri löggjöf í málaflokknum með því að fasta í tíu daga frá og með næstu mánaðamótum og reykja 1/3 af grammi af kannabis fyrir framan lögreglustöðina á degi hverjum. 

Örvar segir að samtökin hafi staðið fyrir mótmælum bæði í ár og í fyrra 20. apríl eða 4/20, sem er alþjóðlegur dagur kannabis-reykinga, með því að reykja kannabis á Austurvelli fyrir framan Alþingishúsið. Mótmælin hafi verið ansi fjölmenn í ár og að þeir geri ráð fyrir fleirum á næsta ári. Markmið hópsins er að stuðla að afglæpa neyslu kannabis-efna, en hann tekur ekki afstöðu til annarra vímuefna.

Hann vill þó vekja enn frekari athygli á málstað hópsins og segir: „Frá og með næstu mánaðamótum mun ég fasta í tíu daga og ég mun reykja 1/3 af grammi af kannabis fyrir framan lögreglustöðina daglega, í mótmælaskyni við að það sé lögbundið að mér beri að refsa með sektum og fangelsi fyrir neyslu mína á kannabis þar sem ég er ekki að valda öðrum skaða, hættu eða tjóni með upplýstri ákvörðun minni um kannabis-neyslu.“

Aðspurður hvort hann telji að lögreglan muni bregðast við mótmælasvelti hans segir Örvar að lögum samkvæmt beri henni að gera það: „En ef það er það sem þarf til þess að vekja athygli á óréttlætinu sem fylgir því að sekta og fangelsa fólk sem er ekki að valda öðrum skaða, hættu eða tjóni að þá er ég til í að taka því.“

Örvar segir að hann sé orðinn þreyttur á refsistefnu stjórnvalda í kannabis-málum. Hann hafi séð ýmsar hliðar á undirheimunum og viti hvað sé glæpur og hvað sé óréttlæti: „Ég veit hvað ofbeldi er og hef afneitað öllu ofbeldi í mínu lífi og hef því ákveðið að mótmæla á minn persónulega og friðsamlega hátt til að sýna fram á það óréttlæti sem ég bý við og þá fordæmingu sem fylgir því að vera endalaust skilgreindur sem glæpamaður þegar ég er ekki að valda neinum öðrum skaða og þurfa að lifa í ótta við lög sem eru óréttlát á allan hátt.“

RVK Homegrown er með heimasíðu á facebook, og eru meðlimir hópsins nú um þúsund manns. Örvar tekur það sérstaklega fram að sala og dreifing fíkniefna séu ekki leyfileg á heimasíðunni, henni sé einungis ætlað að stuðla að umræðu meðal svipað þenkjandi fólks, hvort sem það styðji afglæpun, fulla lögleiðingu eða notkun kannabis-efna í læknisfræðilegum tilgangi.

Örvar segir að hann vilji ekki hvetja fólk til þess að brjóta lög, og hyggst því standa einn að mótmælunum. „Þetta er mín eigin ákvörðun að gera þetta, en ef aðrir kjósa að taka þátt í þessu með mér að þá mun ég ekki vísa þeim frá eða telja ofan af því, en ég mun heldur ekki hvetja til þess.“ Mótmælin hefjast sem fyrr segir 1. ágúst næstkomandi, og hyggst Örvar hefja þau kl. 4:20 um eftirmiðdaginn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert