Valitor vísar máli Datacell til Hæstaréttar

mbl.is/ÞÖK

Valitor vísaði í dag til Hæstaréttar dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 12. júlí sl. í máli Datacell gegn Valitor en í dómi Héraðsdóms var Valitor gert að veita Datacell greiðsluþjónustu. Í því sambandi telur Valitor vert að benda á eftirfarandi:

Valitor tekur ekki afstöðu til starfsemi Wikileaks eða deilu samtakanna við alþjóðlegu kortasamsteypurnar Visa EU og Mastercard. Hins vegar er það engum vafa undirorpið að þjónusta af því tagi sem Datacell sækist eftir að undirlagi Wikileaks fer gegn afstöðu alþjóðlegu kortasamsteypanna enda telja þær þjónustuna ekki samrýmast reglum sínum. Afstaða kortasamsteypanna til miðlunar á greiðslum til Wikileaks hefur legið ljós fyrir frá upphafi og hefur danska fyrirtækið Teller áður lokað fyrir miðlun á greiðslum til Wikileaks.

Valitor er ókleift að veita þá þjónustu sem hér um ræðir. Í fyrsta lagi væri greiðslumiðlun Valitor til Wikileaks í gegnum Datacell í raun óframkvæmanleg þar sem alþjóðlegu kortasamsteypurnar kæmu í veg fyrir að greiðslurnar færu í gegn. Í öðru lagi væri tilraun til slíks með öllu óábyrg þar sem fyrirtækið ætti á hættu að vera útilokað frá viðskiptum við kortasamsteypurnar. Sú staða myndi mögulega setja þjónustu Valitor við viðskiptavini hér heima og erlendis í uppnám.

Af framangreindu má ráða að Valitor átti ekki annars úrkosti en að beina til Hæstaréttar niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur þess efnis að fyrirtækinu bæri að opna greiðsluþjónustu við Wikileaks í gegnum Datacell. Valitor væri einfaldlega ógerningur að verða við dómnum.

Einnig er vert að árétta að Datacell var fullkomlega kunnugt um að kortasamsteypurnar Visa EU og Mastercard hefðu lokað á Wikileaks. Valitor telur því að Datacell hafi vísvitandi leynt þeim tilgangi sínum að vera milliliður fyrir Wikileaks þegar fyrirtækið kom sér í viðskipti hjá Valitor á síðasta ári, enda tilgreindi Datacell ekki þá tegund starfsemi í umsókn sinni að taka við fjárframlögum fyrir þriðja aðila. Tekið var fyrir viðskiptin jafnskjótt og upp komst að Datacell nýtti sér í heimildarleysi þjónustu Valitor til að innheimta fjárframlög fyrir Wikileaks.

Loks skal tekið fram að getgátur um að bandarísk yfirvöld hafi þrýst á Valitor um að veita Wikileaks ekki þjónustu eru algerlega úr lausu lofti gripnar og ósannar, segir í tilkynningu Valitors.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert