Kærum vegna kosninga hafnað

mbl.is/Kristinn

Hæstiréttur hefur hafnað kærum sem bárust vegna framkvæmdar forsetakosninganna 30. júní síðastliðinn.

Hæstarétti bárust þrjár kærur vegna málsins.

Hæstarétti barst kæra vegna undirbúnings forsetakosninga 2012 frá Hauki Haraldssyni, Helenu Hauksdóttur, Kristni Jónssyni og Ingvari Erni Arnarssyni, sem einnig var beint til innanríkisráðuneytisins og umboðsmanns Alþingis. Í erindinu sagði að kært sé „hvernig staðið hefur verið að undirbúningi forsetakosninga 2012 af Yfirkjörstjórnum og Innanríkisráðuneytinu“ og krafist „leiðréttinga og eða ógildingar kosninganna.“

Dómstóllinn segir að ekki sé að finna heimild til að beina til Hæstaréttar erindi af þessu tagi og var kærunni því vísað frá Hæstarétti.

Þá barst Hæstarétti ódagsett bréf Ástþórs Magnússonar Wium þann 13. júlí þar sem hann bar fram kæru, sem varðaði lögmæti forsetakjörsins. Í kærunni er þess krafist að Hæstiréttur lýsi forsetakosningarnar ógildar vegna þriggja atriða, sem tengjast því að kærandinn hugðist samkvæmt gögnum málsins bjóða sig fram, en innanríkisráðuneytið tilkynnti honum með bréfi 1. júní 2012 að framboð hans yrði ekki metið gilt.

Hæstiréttur hefur nú hafnað kröfu Ástþórs.

Loks barst Hæstarétti bréf Ragnars Aðalsteinssonar hæstaréttarlögmanns 18. júlí sl., þar sem hann ber fram kæru í þágu Ásdísar Jennu Ástráðsdóttur, Guðmundar Magnússonar og Rúnars Björns Herrera Þorkelssonar, sem varðar lögmæti forsetakjörs samkvæmt. Í kærunni er þess krafist að kjör forseta Íslands í kosningum 30. júní 2012 verði ógilt.

Þeirri kröfu hefur dómstóllinn jafnframt hafnað.

Ákvörðun Hæstaréttar í heild.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert