Ótvíræður galli en leiðir ekki til ógildingar

mbl.is/Sverrir

Hæstiréttur segir það teljast ótvíræðan galla á forsetakjörinu að einn kjósandi, sem var ekki verið einfær um að greiða atkvæði í kosningunum, hafi þegið aðstoð frá manni, sem fylgdi kjósandanum á kjörstað en átti ekki sæti í kjörstjórn. Dómstóllinn segir hins vegar að gallinn leiði ekki til ógildingar enda með öllu óviðkomandi sigurvegara kosninganna.

Þetta kemur fram í ákvörðun Hæstaréttar sem hefur hafnað kæru sem barst frá Öryrkjabandalaginu vegna forsetakosninganna. Í ákvörðuninni er Hæstiréttur að fjalla um það hvernig Freyja Haraldsdóttir fékk að kjósa.

Í ákvörðuninni segir eftirfarandi:

„Jafnframt liggur fyrir að í einu öðru tilviki fékk kjósandi, sem ekki var einfær um að greiða atkvæði, aðstoð frá manni, sem fylgdi kjósandanum á kjörstað en átti ekki sæti í kjörstjórn. Teljast þetta ótvíræðir gallar á forsetakjörinu. Í 3. mgr. 120. gr. laga nr. 24/2000, sbr. einnig 94. gr. laga nr. 5/1998 um kosningar til sveitarstjórna, kemur fram sú meginregla í íslenskum rétti að almennar kosningar skulu því aðeins lýstar ógildar að slíkir gallar séu á þeim að ætla megi að þeir hafi haft áhrif á kosningaúrslit.“

Ennfremur segir: „Frá þessari meginreglu er gerð undantekning með því að mælt er svo fyrir í fyrrnefnda lagaákvæðinu að alþingiskosningar skuli allt að einu ógiltar ef þingmaður, umboðsmenn hans eða meðmælendur hafa vísvitandi átt sök á misfellum, enda séu þær verulegar. Í lögum nr. 36/1945 er ekki kveðið á um það hvenær gallar á forsetakjöri skuli leiða til ógildingar þess. Þótt ekki sé þar efnislega vísað til 3. mgr. 120. gr. laga nr. 24/2000 hljóta sömu reglur eftir eðli máls að eiga við þegar úrskurðað er um gildi forsetakjörs og alþingiskosninga, enda er í báðum tilvikum um að ræða almennar kosningar á landinu öllu.“

Loks segir: „Samkvæmt því verður ekki litið svo á að fyrrgreindir gallar á forsetakjörinu 30. júní 2012 eigi að leiða til ógildingar þess, enda voru þeir með öllu óviðkomandi þeim frambjóðanda, sem flest atkvæði hlaut, umboðsmönnum hans og meðmælendum og höfðu augljóslega engin áhrif á úrslit kjörsins.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert