Segja Valitor hóta almenningi

Kristinn Hrafnsson er talsmaður Wikileaks.
Kristinn Hrafnsson er talsmaður Wikileaks. AFP

Wikileaks og Datacell segja að Valitor hafa tekið sér stöðu með bandarísku kortarisunum gegn íslenskum neytendum og taki fullan þátt í aðför gegn WikiLeaks. „Valitor hefur því vegna hótana, þrýstings eða að eigin frumkvæði ákveðið að taka þátt í einkavæðingu pólitískrar ritskoðunar sem VISA, MasterCard og fleiri beita WikiLeaks.“

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Wikileaks og Datacell. Þar segir að Valitor hafi ákveðið að áfrýja til Hæstaréttar ómi sem fyrirtækið tapaði 12. júlí í Héraðsdómi Reykjavíkur án þess að nokkrar lagalegar forsendur séu til staðar.

Með dómi Héraðsdóms hafi Valitor verið gert að standa við gerða samninga við DataCell og opna fyrir greiðslugátt fyrir kreditkort til fyrirtækisins en það hafi meðal annars séð um að taka við styrktarfé ætlað WikiLeaks.

„Í fréttatilkynningu Valitor í gær eru endurtekin ósannindi um að DataCell hafi beitt Valitor blekkingum en þessi málflutningur þótti héraðsdómara vita haldlaus enda ekki studdur haldbærum gögnum, þvert á móti. Þeir sem öryggisvottuðu greiðslugáttina báru vitni um það fyrir dómi að þeir hefðu tilkynnt Valitor um eðlis greiðslugáttarinnar og að hún væri til að koma styrktarfé til WikiLeaks. Mátti því Valitor vera fullkunnugt um ætlun DataCell. Í því ljósi er þessi ásökun Valitor, líkt og áður, fráleit.

Enn alvarlegra er að Valitor hefur nú uppi hótanir gagnvart viðskiptavinum sínum. Í fréttatilkynningu fyrirtækisins segir að það geti með engu móti farið að dómi héraðsdóms. Það væri ,,...með öllu óábyrg þar sem fyrirtækið ætti á hættu að vera útilokað frá viðskiptum við kortasamsteypurnar. Sú staða myndi mögulega setja þjónustu Valitor við viðskiptavini hér heima og erlendis í uppnám.”

Þessi orð verða ekki skilin með öðrum hætti en að Valitor ætli sér að bera á borð Hæstaréttar þau rök að hann verði að vísa til hliðar landslögum, ella eigi íslenskir korthafar á hættu þjónustuskerðingu vegna refsiaðgerða bandarísku kortarisanna VISA og MasterCard.  Þetta rímar illa við fullyrðingar Valitors fyrir héraðsdómi að fyrirækið hefði ekki verið beitt þrýstingi til að loka á greiðslugátt DataCell,“ segir í tilkynningunni.

„Ljóst er að Valitor hefur tekið sér stöðu með bandarísku kortarisunum gegn íslenskum neytendum og tekur fullan þátt í aðför gegn WikiLeaks. Valitor hefur því vegna hótana, þrýstings eða að eigin frumkvæði ákveðið að taka þátt í einkavæðingu pólitískrar ritskoðunar sem VISA, MasterCard og fleiri beita WikiLeaks. Í fordæmalausri aðgerð hafa þessi fjármálaveldi tekið upp á því að hindra almenning í að ráðstafa eigin fjármunum til stuðnings samtökum sem vinna að gagnsæi og upplýsingafrelsi. Með þessu er gróflega vegið að tjáningafrelsi einstaklingsins með grímulausri misbeitingu valds. Tekið skal fram að WikiLeaks hefur hvergi í heiminum verði ákært, hvað þá sakfellt fyrir ólögmæta starfsemi. Það sama verður ekki sagt um hin alþjóðlegu kortafyrirtæki, né heldur Valitor sem greiddi eina hæstu fjársekt Íslandssögunnar fyrir þaulskipulögð brot gegn samkeppnislögum. Þar með hagsmunum almennings, sem Valitor skýlir sér nú á bak við, með ósmekklegum hætti.

WkiLeaks hefur í samstarfi við DataCell og fleiri aðila tekið til varna víða um heim gegn yfirgangi bandarísku fjármálafyrirækjanna. Þeirri baráttu verður haldið til streitu enda ríkir hagsmunir í húfi. Treysta verður Hæstarétti til að staðfesta skýran og ótvíræðan dóm héraðsdóms,“ segir ennfremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert