„Sigur lýðræðislegrar byltingar“

Dr. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands.
Dr. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands. mbl.is/Eggert

„Ég held að það séu margar ástæður. Þar á meðal að fólkið vill vera visst um að í framtíðinni sé maður með reynslu og tilbúinn að taka ákvarðanir jafnvel þó svo að þeim sé mótmælt af valdaöflum í samfélaginu,“ sagði dr. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands í viðtali við fréttamanninn Christophe Robee á sjónvarpsstöðinni France 24 sem birtist í dag.

„En ég held að kannski hafi það verið stuðningur við mig vegna þeirrar ákvörðunar að fara með Icesave málið í þjóðaratkvæðagreiðslu, ekki bara vegna málsins sjálfs heldur vegna þess að hafa komið á virku lýðræði í málum sem fólkið vill ákvarða um,“ sagði Ólafur Ragnar.

Sigur fyrir lýðræðislega byltingu

„Ég sé þetta meira sem sigur lýðræðislegrar byltingar í mínu landi á tímum efnahagslegra erfiðleika fremur en minn persónulega sigur,“ sagði Ólafur Ragnar.

Ólafur Ragnar minnti á að íslenska forsetaembættið hefði verið það fyrsta í veröldinni þar sem fólkið kaus forseta í beinni kosningu og að inntökin í stjórnarskránni væru á þá leið að forseti ætti að vega upp á móti þinginu þegar þjóðin væri ekki sátt við lyktir mála á Alþingi. Hann sagði að um alla Evrópu hefðu ráðamenn þurft að taka erfiðar ákvarðanir á síðustu tímum. Það sem hér Íslandi hefði gerst væri áhugaverð sýn á átökin á milli fjármagns og lýðræðis.

Þjóðaratkvæðagreiðslur hjálpuðu fólki að fá nýja sýn á framtíðina

„Árangurinn af efnahagsbata Íslands er áhugaverður í því ljósi sem fólk í Evrópu var að tala um þegar ég setti Icesave málið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Fólk spáði því að Ísland myndi einangrast. Hér yrðu fjármálalegar rústir og einhverjir sögðu að Ísland yrði jafnvel „Kúpa norðursins.“ Engar af þessum dómsdagsspám reyndust réttar. Þvert á móti. Árangurinn af þjóðaratkvæðagreiðslum hjálpaði til við að rétta af efnahag þjóðarinnar með því að gefa þjóðinni sjálfsálit á ný og sjálfstraust. Að gefa þeim nýja sýn á aðra framtíð.

Hér erum við næstum fjórum árum eftir bankahrunið með íslenska hagkerfið í góðum bata og minnsta atvinnuleysi í Evrópu. Margir af mikilvægum þáttum atvinnulífsins eru að gera mun betur nú en árin á undan bankahruninu. Ég held að þetta sé sambland af réttum ákvörðunum stjórnmálamanna og af lýðræðisvæðingunni hér á landi,“ sagði Ólafur Ragnar um ástæður efnahagsbatans.

Þjóðinni best borgið utan við Evrópusambandið

„Mín afstaða hefur byggst á nokkrum atriðum. Eitt er að við erum hluti af Norður-Atlandshafinu og norðurhluta Evrópu. Nágranni okkar í vestri, Grænland ákvað að yfirgefa Evrópusambandið. Nágranni okkar í austri, Noregur, gekk tvisvar í gegnum þjóðaratkvæðagreiðslur um inngöngu í Evrópusambandið og mistókst í bæði skiptin. Ef þú ferð um alla norðanverða Evrópu frá Grænlandi gegnum Ísland, Bretland, Noreg, Danmörku og Svíþjóð er það ekki fyrr en á Finnlandi sem þú finnur evruríki.

Í reynd hefur nánast öll Norður-Evrópa ákveðið að halda í eigin gjaldmiðil og ef þú bætir við landfræðilegri staðsetningu okkar og hvernig nágrannaríki okkar hafa valið að fara aðra leið í gjaldmiðilsmálum og bætir svo við yfirráðunum yfir landhelginni og auðlindum landsins. Það hefur alltaf verið mitt mat að það væri betra fyrir Ísland, að þessu gefnu, að halda þjóðinni utan við Evrópusambandið,“ sagði Ólafur Ragnar.

„Evran engin ávísun á árangur“

„Ég held að allir átti sig á því að einn mesti lærdómur sem Evrópuríkin geta dregið á undanförnum árum er sú staðreynd að evran sjálf er ekki ávísun á neinn árangur. Raunin er sú að evrusvæðið er það svæði sem hefur endurtekið þurft að horfast í augu við áhrif kreppunnar hefur haldið fleiri neyðafundi um gjaldmiðilinn en nokkurt annað svæði í heiminum,“ sagði Ólafur Ragnar þegar hann var inntur eftir því hvort evran væri ekki betri hér á landi í því ljósi að hér væri tíð verðbólga og háir vextir.

„Krónan mikilvægur hluti af lausninni“

„Þegar bankarnir voru meðal stærstu fyrirtækja landsins var hægt að halda því fram að krónan hafi jafnvel verið hluti vandans. En það á ekki við lengur og við endurreisn landsins er það svo að krónan er mikilvægur hluti af lausninni. Sú staðreynd að með því að geta fellt gjaldmiðilinn gátum við gert útflutningsgreinarnar, orkugeirann, fiskinn, ferðageirann og tæknigeirann betur samkeppnishæfa og framsækna.

Ein af ástæðum fyrir því að íslenskur ferðaiðnaður hefur aukist stórkostlega frá hruni er okkar eigin gjaldmiðill. Þetta er ein af klassísku leiðunum til að ná bata,“ sagði Ólafur Ragnar.

Utanríkisráðherrann á erfitt verkefni fyrir höndum

Forsetinn sagði að utanríkisráðherrann myndi eiga mjög erfitt verkefni fyrir höndum að ná útkomu í samningaviðræður við Evrópusambandið sem íslenska þjóðin myndi samþykkja.

„Lítum á sjávarútvegsstefnuna. Af hverju er Ísland að ná árangri? Ein af ástæðunum er okkar sjávarútvegsstefna. Við höfum stundað sjálfbærar veiðar til áratuga á meðan fiskistofnar hrynja allt í kring. Allir sjávarútvegsráðherrar Evrópusambandsins viðurkenndu fyrir ári að sjávarútvegsstefna Evrópusambandiðn væri mislukkuð.

Sjávarútvegurinn er stór hluti af tekjulind þjóðarinnar. Það mætti halda því fram að það væri ekki lýðveldi á Íslandi ef ekki hefðu komið til fiskveiðar okkar á undanförnum áratugum. Staðreynd málsins er sú að Evrópusambandið er með mislukkaða fiskveiðistefnu og kannski á næstum árum munu þeir viðurkenna að íslenska stefnan er betri,“ sagði Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands.

Bessastaðir, embættisbústaður forseta Íslands þar sem viðtalið fór fram.
Bessastaðir, embættisbústaður forseta Íslands þar sem viðtalið fór fram. mbl.is/Ómar
Ólafur Ragnar telur þjóðina hafa styrkst við að kjósa tvívegis …
Ólafur Ragnar telur þjóðina hafa styrkst við að kjósa tvívegis um Icesave-lögin og hún hafi við það öðlast sjálfstraust. mbl.is/Ómar
mbl.is