Úrslitastuðningur sóttur til Hreyfingarinnar

Kristrún Heimisdóttir, lektor.
Kristrún Heimisdóttir, lektor. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

„Til Hreyfingarinnar sækir ríkisstjórnin úrslitastuðning og felur það ekki þótt þingmenn þess flokks hafi varið fyrir augum alþjóðar í sjónvarpi hrottalega lífshættulega líkamsárás sem varðaði hámarksrefsingu fyrir dómstólum,“ segir Kristrún Heimisdóttir, lektor í lagadeild Háskólans á Akureyri og fyrrverandi aðstoðarmaður Árna Páls Árnasonar, efnahags- og viðskiptaráðherra, meðal annars í grein í Fréttablaðinu í dag.

Þar vísar Kristrún til ummæla Þórs Saari, þingmanns Hreyfingarinnar, í kjölfar lífshættulegrar líkamsárásar á Skúla Eggert Sigurz, framkvæmdastjóra lögmannsstofunnar Lagastoða, hinn 5. mars síðastliðinn en þar sagði Þór meðal annars að það að slíkt gerðist „í því ástandi sem hefur verið viðvarandi hér á landi undanfarin tæp fjögur ár er hreint ekki undarlegt eða óskiljanlegt.“ Þór bregst við grein Kristrúnar á Facebook-síðu sinni og segir að hún viti vel að þetta sé alrangt.

„Hið sérkennilega er að hér er hún að gagnrýna ríkisstjórnina og forystu hennar á ská gegnum Hreyfinguna, svona eins og sovét gerði þegar þeir gagnrýndu Albaníu en vildu gagnrýna Kína. Það er ekki burðugt siðferðið hjá þessu fólki sem þorir ekki að segja það sem það meinar og heldur fram ósannindum til að ná athygli. Leiðinlegt að sjá Kristrúnu komna í þennan hóp,“ segir Þór.

Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar.
Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert