Eiga það til að synda upp á land

Gísli Víkingsson, hvalasérfræðingur hjá Hafrannsóknastofnun, segir að ekki sé óalgengt að grindhvalir sjáist í stórum vöðum uppi við land. Þetta sé sú tegund úthafshvala sem lendi oftast í því að synda á land í stórum hópum. Það er hins vegar sjaldgæft að þeir sjáist uppi við strendur Íslands. Hundruð grindhvala eru nú undir Stapanum neðan við byggðina í Dalshverfi Innri Njarðvíkur, líkt og mbl.is sagði frá fyrr í dag.

„Færeyingar nýta sér þessa hegðun og hjálpa þeim oft síðasta spölinn, þegar hvalirnir koma að landi fara þeir út fyrir og reka þá upp á land. Oft þurfa grindhvalirnir enga aðstoð við það heldur fara þeir af sjálfsdáðum upp á þurrt,“ segir Gísli.

Gísli segir að síðast hafi grindhvali rekið hér á land árið 1986 við Þorlákshöfn. Þá hafi menn vaknað um morguninn og rekist á eitthvað á annað hundrað dýr dauð í fjörunni.

„Þetta hefur gerst þó nokkuð oft svo vitað sé í Njarðvíkum. Til dæmis voru rúmlega 100 grindhvalir drepnir árið 1957 og síðan er allavega eitt annað þekkt dæmi í Njarðvík frá árinu 1875, þá er talað um að yfir 200 grindhvalir hafi verið reknir á land og drepnir.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert