„Grindhvalirnir tilkomumikil sjón“

Hundruð grindhvala eru nú undir Stapanum neðan við byggðina í Dalshverfi Innri Njarðvíkur. Hafa þeir verið þar síðan í morgun og virðist sem þeir séu í miklu æti. Þetta kemur fram í frétt Víkurfrétta um málið.

Hilmar Bragi Bárðarson, fréttastjóri Víkurfrétta segir í samtali við mbl.is að fyrst hafi orðið vart við vöðuna upp úr klukkan sjö í morgun, og hún sé þar enn. „Þetta er tilkomumikil sjón og mér skilst nú á þeim sem voru þarna, það var einn eldri maður að reyna að telja þetta, hann var að skjóta á að þetta væru á bilinu 2-300 hvalir sem væru búnir að vera þarna síðan í morgun.“

Hilmar Bragi segir að svo virðist sem að grindhvalirnir séu að éta makríl þarna. Frá þeim berist sérkennileg hljóð. „Það er mikill söngur, einhvers konar tíst í þeim, og þegar þeir eru komnir saman svona margir hljómar þetta eins og í fuglabjargi.“

„Þetta er mjög sérstök upplifun,“ segir Hilmar Bragi en samkvæmt honum hafði enginn viðstaddra séð slíka uppákomu áður. Þó ræki elstu menn minni til þess að grindhvalavaða hefði sést á svipuðum slóðum um miðja síðustu öld. „Þá voru þeir hins vegar reknir upp á land og slátrað að hætti Færeyinga.“ 

mbl.is