Var hvölunum smalað að landi?

Hvalskoðunarskip Hafsúlunnar sigldi að grindhvalavöðunni og stýrði henni á haf …
Hvalskoðunarskip Hafsúlunnar sigldi að grindhvalavöðunni og stýrði henni á haf út. mbl.is/Reynir Sveinsson

Fjölmiðlar greindu í gær frá því þegar nokkrir grindhvalir festu sig í fjörunni við Innri Njarðvík en stór grindhvalavaða var úti fyrir ströndinni. Margir hafa velt fyrir sér af hverju hvalirnir syntu upp í fjöruna, en vegfarandi sem átti leið hjá segir hluta hóps sem losaði dýrin úr fjörunni hafa beinlínis rekið hvalina á land. 

Björn Ólafur Hallgrímsson kom ásamt eiginkonu sinni á vettvang um kl. 13 í gær og fylgdust þau með atburðarásinni fram eftir degi. „Við fórum upp á Stapann og horfðum þaðan í sjónauka á vöðuna, sem þá var þar norður af en góðan spöl frá landi.  Þarna er aðdjúpt og lítil hætta á að hvalir strandi,“ segir Björn Ólafur en hvalreki er mjög sjaldgæfur á þessum slóðum.  

„Nokkru síðar kom úr vestri slöngubátur með nokkra menn í köfunarbúningum.  Illu heilli sigldu þeir bátnum að vöðunni utanverðri, fóru norður-austur fyrir hana og styggðu svo að hún færði sig nær landi og vestur með ströndinni. Kafarar fóru í sjóinn innan um dýrin og greinilega gerði það illt verra.“ 

Samstarf í „smalamennsku“

Að sögn Björns fengu kafararnir síðan liðsinni. „Skömmu síðar kom á vettvang hvítur lítill hraðbátur. Hann fór norður og austur fyrir vöðuna og virtist „smala“ henni að landi og til vesturs. Í hvert skipti sem vaðan leitaði út á við, fjær landi, sigldi þessi bátur í veg fyrir hana og hélt henni þannig upp að ströndinni,“ segir Björn en hann segir að um tíma hafi svo virst sem áhafnir þessara báta ynnu í sameiningu að „smalamennskunni“.

„Í þann mund sem bátarnir voru búnir að fæla vöðuna alveg upp að stórgrýttri fjörunni og fyrstu dýrin voru strönduð, tilkynnti ég lögreglunni hvernig komið væri. Ég taldi þessar athafnir áhafna bátanna tveggja grafalvarlegar bæði vegna fyrirsjáanlegs og óþarfs dauða dýranna og einnig vegna þeirrar gríðarlegu mengunar, sem af myndi hljótast, ef mikill fjöldi dýranna dræpist þarna á ströndinni inni í miðri byggð Innri-Njarðvíkur,“ segir Björn.

„Nokkur dýr syntu síðan í strand og þá hjálpuðust menn að við að losa þau. Kafararnir hlutu lof fyrir framgöngu sína og þess háttar umfjöllun í fréttum, en enginn sagði þá réttu sögu að kafararnir ásamt áhöfninni á hinum bátnum stofnuðu hvölunum bráðan háska sem og öðrum brýnum hagsmunum,“ segir Björn. „Hvergi er þess getið að það voru einmitt kafararnir sem báru ábyrgð á og voru valdir að því að koma dýrunum í háska,“ segir Björn. „Manni finnst hálfhallærislegt þegar brennuvargurinn verður að hetju af því að hann aðstoði við slökkvistarf,“ segir hann. 

Snerist hugur í miðjum klíðum?

Seint um daginn „smalaði“ svo stór hvalaskoðunarbátur vöðunni frá landi með því að sigla fram og aftur meðfram henni landmegin og þeyta skipsflautuna í sífellu. „Það sýnir að mögulegt er að stýra vöðunni með þeim hætti sem gert hafði verið fyrr um daginn,“ segir Björn.  

Aðspurður segist Björn engar skýringar kunna á því af hverju mennirnir hafi rekið hvalina á land aðeins til að reka þá meidda aftur á haf út. „Mér dettur í hug að þeim hafi snúist hugur í miðjum klíðum. Þeir hafa áttað sig á afleiðingum eigin gjörða og umfangi og þess vegna ákveðið að demba sér í björgunarstarf þegar fréttamenn og fjölmiðlar mættu a staðinn,“ segir Björn.

Sjá myndskeið mbl.is af björgun hvalanna hér.

Flugvél flaug afar lágt til að sjá grindhvalavöðuna betur, en …
Flugvél flaug afar lágt til að sjá grindhvalavöðuna betur, en á myndinni sést stærð vöðunnar ágætlega. mbl.is/Stefán Stefánsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert