Hálfnaður til Kína á reiðhjóli

Símon er að mestu einn á ferð en hefur fengið …
Símon er að mestu einn á ferð en hefur fengið ýmsan félagsskap á leiðinni. Ljósmynd/Símon Halldórsson

„Þetta er mikið ævintýri og alltaf eitthvað nýtt að sjá," segir Símon Halldórsson, 37 ára hjólreiðakappi og vélsmiður sem hefur undanfarna 5 mánuði hjólað mót austri frá Íslandi í gegnum Evrópu og til Íran þar sem hann er nú staddur. Símon stefnir til Kína og jafnvel lengra, en lokaáfangastaður er óákveðinn.

Hjólar að jafnaði um 100 km á dag

„Ég setti mér tímaramma en hann er alltaf að breytast til eða frá og ég er ekki með neinn endapunkt. En ég ætla til Kína, og sjá svo til hvað verður. Mig langar mikið að halda áfram þaðan til Víetnam, Tælands og Laos, en svo verður að ráðast hvort ég tek Síberíuhraðlestina til Rússlands eða fer til Nýja-Sjálands og þaðan áfram til Ástralíu," segir Símon sem hefur undanfarna daga dvalið í góðu yfirlæti í Tehran, höfuðborg Írans. 

Leiðin sem Símon setti sér til Kína er um 19.000 km löng í gegnum 20 lönd en hann spilar ferðina eftir eyranu og ef að líkum lætur verður hún orðin talsvert lengri áður en hann snýr aftur heim. Dagleiðirnar sem liggja  að baki eftir fyrstu 20 vikurnar eru allt frá 50 og upp í 160 km langar, en Símon segist að jafnaði hjóla um 100 km á dag, með um 35 kg af farangri.

Móðir hans hjólaði með honum hluta leiðarinnar í Evrópu, en frá Belgrad í Serbíu hefur hann verið einn á ferð þar til hann rakst á þrjá aðra hjólreiðamenn, Frakka og Kanadamann, og hafa þeir verið í samfloti í Íran. Ferðin er u.þ.b. hálfnuð miðað við fyrstu áætlanir og hefur hún gengið ótrúlega vel að sögn Símonar. 

Umkringdur um leið og hann stoppar

„Áður en ég lagði af stað var ég aðeins með hnút í maganum yfir því sem er í gangi á pólitíska sviðinu í Íran, en það er ekkert sem maður verður var við. Okkur kemur mikið á óvart hvað ástandið er öðruvísi og miklu frjálslegra heldur en málað er upp í fjölmiðlum. Aldrei nokkurn tíma hefur okkur fundist við vera í neinni hættu, en við fáum mjög mikla athygli hérna. Kannski af því að það eru svo fáir túristar, svo það eru margir sem vilja tala við okkur. Þeir sem kunna ensku vilja allir æfa sig svo ef maður stoppar er maður fljótt umkringdur."

Símon gistir ýmist í tjaldi eða í heimahúsi, og í Teheran hefur hann fengið gistingu hjá heimamönnum. „Maður pikkar bara í næsta mann og spyr hvort það sé í lagi að tjalda. Þá er manni ýmist hleypt inn á lóð eða boðið í hús, og um leið og maður kemst í kynni við einn þá kemur til kunningi sem vill hýsa mann næst," segir Símon og bætir því við að í ferðinni allri hafi honum víðast hvar mætt vinsamlegt fólk og mikil gestrisni.

„Þrátt fyrir alla gestrisnina hér í Íran var einn sem ég var í teboði hjá sem ruddi öllu um koll í æsingi. Það var þegar hann komst að því að ég væri einhleypur og vildi endilega sýna mér dóttur sína." Símoni tókst að snúa sig út úr þeim aðstæðum og gekk ólofaður út. 

Skriffinnska helsta ljónið í veginum

Hjólreiðaferð frá Evrópu um Mið-Austurlönd til Kína kann að hljóma eins og mesta svaðilför en að sögn Símons hefur skriffinnska verið helsta ljónið í veginum. „Auðvitað hefur maður lent í einhverjum smá svaðilförum, en þetta hefur ekki verið neitt sérstaklega erfitt.

„Pappírsvinnan er það sem hefur tafið mig mest, en það getur verið rosalega flókið og tímafrekt að fá vegabréfsáritanir inn í hin ýmsu Asíulönd. Á morgun held ég af stað í austurátt til Nassad og þaðan fer ég í gegnum Túrkmenistan, Úsbekistan og Kirgistan. Þessi lönd eru í raun ótrúlega lokuð en það er hluti af ævintýrinu að greiða úr þessum farartálmum."

Heimurinn lítur öðruvísi út á hjóli

Símon er vanur ferðalangur og hefur áður flækst um fjarlægar slóðir auk þess að stunda mikla útivist hér á Íslandi, m.a. í björgunarsveitarstarfi. Skemmtilegast segir hann að ferðast á tveimur jafnfljótum, og með hjálp reiðhjóls eða gönguskíða. Það var því ekki upp úr þurru sem reiðhjólið varð fyrir valinu sem fararskjóti í heimsreisunni. Hann mælir eindregið með þessum ferðamáta og segir koma á óvart hve margir séu á ferðinni að skoða heiminn á hjóli.

„Fólk á það til að mikla fyrir sér að vera á reiðhjóli en raunin er sú að þetta gefur ferðalaginu allt annað gildi. Þetta snýst ekki um að sprengja sig á dugnaði við að stíga á pedalana, heldur að kynnast landinu á annan hátt. Erfiðleikarnir eru ekki fólgnir í því að hjóla, heldur aðallega í að vera með hjólið með sér. Þú þarft að passa upp á það og búnaðinn, vera útsjónarsamur í að finna tjaldsvæði og þú verður stundum skítugur því þú kemst ekki í sturtu á hverjum degi. En þú sérð heiminn á allt annan máta en út um bílrúðu. Nándin er miklu meiri."

Móðir Símons ákvað að hjóla með honum í Evrópu en …
Móðir Símons ákvað að hjóla með honum í Evrópu en þau kvöddust í Serbíu. Ljósmynd/Símon Halldórsson
Símon og fjallið Ararat í baksýn.
Símon og fjallið Ararat í baksýn. Ljósmynd/Símon Halldórsson
Símon segir að nándin við umhverfið sé miklu meiri af …
Símon segir að nándin við umhverfið sé miklu meiri af hjóli en í bíl og ferðalagið fái því annað gildi. Ljósmynd/Símon Halldórsson
Veðrin geta verið af ýmsu tagi. Hér skolar Símon af …
Veðrin geta verið af ýmsu tagi. Hér skolar Símon af hjólinu í polli. Ljósmynd/Símon Halldórsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert