Öryggismyndavélar í Herjólfsdal

Nýju öryggismyndavélarnar í Herjólfsdal virka að nóttu sem degi.
Nýju öryggismyndavélarnar í Herjólfsdal virka að nóttu sem degi. mbl.is

Búið er að setja upp 11 háskerpueftirlitsvélar í Herjólfsdal sem auka eiga öryggi gesta á Þjóðhátíð. „Því er ekki að neita að við lentum í áföllum í fyrra sem snertu okkur djúpt. Strax eftir þá hátíð fórum við að velta fyrir okkur hvað við gætum gert betur,“ segir Páll Scheving Ingvarsson, formaður Þjóðhátíðarnefndar. „Uppsetning eftirlitsmyndakerfisins nú er liður í þeirri vinnu auk þess sem við teljum að uppsetning þess hafi ákveðið forvarnargildi.“

Eiga nú að geta varið gesti mun betur - líka forvarnargildi

Öryggi gesta hefur ávallt verið í fyrirrúmi á Þjóðhátíð að sögn Páls. Eins og fyrr sagði var lagst í mikla vinnu í kjölfar síðustu hátíðar þar sem m.a. gróft nauðgunarmál kom upp. Er uppsetning myndavélakerfisins nú liður í að auka enn frekar á öryggisviðbúnað á svæðinu. „Við eigum nú að geta varið gesti okkar mun betur en við höfum nokkurn tímann getað gert áður og þó höfum við lagt okkur gríðarlega fram í gegnum tíðina,“ segir Páll.

Virka nýju myndavélarnar þannig að hægt er að bera kennsl á einstaklinga á myndunum, hægt er að snúa vélunum í 360° gráður og því hægt að fylgjast með einstaklingum og atburðum gerist þess þörf o.fl. Það að það sé komið betra eftirlit á svæðið teljum við ákveðna forvörn líka. „Vonandi þurfum við ekki að nota búnaðinn til að elta uppi glæpi og fólk hagar sér vel. En þetta er til staðar ef eitthvað gerist og líka metið sem forvörn,“ sagði Páll.

120 manns á vakt á hverri nóttu

Auk nýju myndavélanna kemur fjöldi fólks að öryggismálum á Þjóðhátíð nú sem fyrr að sögn Páls. Um 120 manns munu starfa við gæslu í Herjólfsdal á hverri nóttu til dæmis. Þar af má telja a.m.k. 14 lögreglumenn sem eru þarna í í þessum eina tilgangi til viðbótar við annað lögreglulið í bænum. Þá verða hjúkrunarfræðingar, sjúkraflutningamenn á bílum auk læknis ávallt á staðnum o.s.frv.

Barist gegn bleikum fílum

Auk fyrrnefndra öryggisatriða mun forvarnarhópur gegn kynferðisglæpum einnig taka virkan þátt í Þjóðhátíðinni í ár. Hópurinn var stofnaður síðastliðið vor af Vestmannaeyingum í samstarfi við ÍBV og berst gegn nauðgunum og öðru kynferðislegu ofbeldi. Er bleikur fíll tákngervingur nauðgunar og nauðgara hjá hópnum, sem vill hann burt. Hefur hópurinn unnið að forvörnum og minnt á málefnið nú í aðdraganda hátíðarinnar. Mun hann einnig vera vel sýnilegur í Herjólfsdal að sögn Páls.

Frá Þjóðhátíð í Eyjum.
Frá Þjóðhátíð í Eyjum. Mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert