Enn loga sinueldar í Laugardal

Sina hefur brunnið við Neðra-Laugarbólsvatn á bænum Hrafnabjörgum frá því …
Sina hefur brunnið við Neðra-Laugarbólsvatn á bænum Hrafnabjörgum frá því á föstudag. mynd/Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir

Sinueldar loga enn á bænum Hrafnabjörgum í Laugardal í Súðavíkurhreppi. Sinueldurinn kom fyrst upp á föstudag og tókst slökkviliði að slökkva eldinn. Á laugardag tóku glæður sig upp og eldurinn hélt áfram að breiðast út, en þá jók í vindinn.

Slökkviliðið á Súðavík hefur verið á staðnum á tveimur vöktum alla helgina með allan sinn búnað og nú í kvöld er enn barist við að hann breiðist frekar út, en um þrír hektarar af landi hafa orðið eldinum að bráð, samkvæmt upplýsingum sjónarvottar.

Annar sjónarvottur, sem mbl.is náði tali af, segir slökkviliðsmenn á vettvangi vinna gott starf og að þeir geri allt sem í þeirra valdi standi, en að það dugi þó ekki til að ráða endanlegum niðurlögum eldsins og segir að með því að fá 20-30 manna aukalið á staðinn ætti að nást að kæfa eldinn með öllu og taldi hann að nágrannasveitarfélög ættu að rétta hjálparhönd og senda lið til að ráða niðurlögum sinubrunans í eitt skipti fyrir öll.

Slökkviliðinu hefur tekist að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu, en vindur á staðnum veldur því að hann tekur sig í sífellu upp aftur, enda er jörð afar þurr eftir langvarandi þurrka í allt sumar.

Talið er að upptök eldsins megi rekja til þess að ferðamenn hafi grillað sér máltíð á einnota grilli á fimmtudag og ekki slökkt nægilega vel í því þannig að á föstudag braust út sinueldur. Þetta kemur fram í frétt á Vestfirska fréttavefnum bb.is í dag.

Bóndi á nágrannabæ hefur verið til aðstoðar með stóra haugsugu, og hefur hún gert mikið gagn á staðnum, að sögn, en svo virðist sem betur megi ef duga skuli.

Haugsuga af nærliggjandi bæ að störfum.
Haugsuga af nærliggjandi bæ að störfum. mynd/Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
mbl.is