Börn oft ranglega greind með ADHD

Áfallastreita og kvíði hafa sömu einkenni og athyglisbrestur og ofvirkni.
Áfallastreita og kvíði hafa sömu einkenni og athyglisbrestur og ofvirkni. mbl.is/ÞÖK

Mörg börn sem greind eru með athyglisbrest og ofvirkni (oft kallað ADHD) og taka lyf við því eru í raun ekki með röskunina heldur glíma við kvíða, áfallastreitu eða streitu, eru jafnvel með mataróþol eða hafa orðið fyrir eitrun af völdum þungmálma eða myglusveppa.

Þetta segir Gréta Jónsdóttir, uppeldisráðgjafi sem sérhæfir sig í að vinna með fólki sem hefur orðið fyrir ofbeldi og áföllum í æsku. Hún leggur auk þess stund á meistaranám í áfallafræðum og meðferð við áföllum við háskóla í Englandi. Hún segist hafa ótal dæmi um að börn hafi verið vitlaust greind með ADHD. „Ég hef ekki enn í minni vinnu, síðastliðin sjö ár, fundið barn sem er raunverulega með ADHD. Ekki eitt. Það er alltaf eitthvað undirliggjandi,“ segir hún og bætir við að fólk virðist ekki nógu meðvitað um að einkennin, sem ADHD er greint eftir, geta átt við hátt í 50 aðra kvilla.

Gréta segir að ekki endilega sé um þekkingarskort meðal sérfræðinga að ræða en undanfarið hafi umræðan um ADHD verið mikil. „ADHD samtökin hafa verið ofboðslega öflug í því að tala um einkennin en enginn annar hefur talað um að einkennin geta verið til marks um eitthvað annað. Það virðist sem svo að það sé ekki horft til þess að það eru aðrir möguleikar.“

Spurð hvað framkalli sömu einkenni og ADHD nefnir Gréta áfallastreitu eða streitu, kvíða og þunglyndi. „Járnskortur, zinkskortur og magnesíumskortur eru með sömu einkenni sem og myglusveppir og þungmálmaeitranir en það geta verið þungmálmar í málningu í gömlum húsum. Einnig hvers lags ofnæmi eða óþol fyrir mjólk, hveiti eða sykri. Þetta er ógrynni og það sem er minnst horft á er streitan hjá börnum og mataræði.“

Sonurinn ranglega greindur með ADHD

Algeng lyf við ADHD eru rítalín, concerta og strattera. Gréta segir lyfin gera öll börn, hvort sem þau glíma við röskunina eða ekki, skýrari og meira vakandi því þau setji boðefnaframleiðsluna af stað. „Hjá börnum sem kljást við streitu þá minnkar virknin í framheila og hann skreppur saman. Framheili er m.a. miðstöð rökhugsunar, skynsemi, ályktana og minnis. Börnin fara að stjórnast af möndlunni (e. amygdala) í heilanum sem stjórnar „berjast, flýja, frjósa“ viðbrögðunum okkar ef við erum í hættuástandi. Þannig veldur langvarandi streita því að börn eru alltaf í viðbragðsstöðu – búast alltaf við hættu. Ef þessi börn fá rítalín eða önnur lyf við ADHD þá ósjálfrátt virka þau í skamman tíma. Það er það sorglega, að fólk fer að bæta við öðrum lyfjum og auka skammtana og skilur ekkert í því að börnin verða fljótt jafnerfið og þau voru áður, jafnvel verri.“

Gréta þekkir þetta ekki aðeins úr starfi sínu en sextán ára sonur hennar, Atli, hefur tvisvar verið ranglega greindur með ADHD, fyrst þegar hann var 11 ára og aftur þegar hann var 12 ára. „Hann var búinn að vera alveg skelfilega erfiður og var settur á rítalín. Svo dugði það ekki og þá var hann settur á concerta og loks strattera, fyrir utan öll hin lyfin sem var dælt í hann, t.d. svefnlyfjum og reiðistjórnunarlyfi sem er alls ekki ætlað börnum. Ég hef ekki töluna á lyfjasúpunni sem er búið að dæla í hann,“ segir Gréta.

Hvað varð síðan til þess að í ljós kom að Atli var vitlaust greindur? „Ég fór í nám til Englands í meðferð á áfallastreitu hjá börnum. Þar þurfti ég að gera verkefni, bera saman einkenni áfallastreituröskunar og athyglisbrests og komst að því að öll einkenni Atla voru áfallastreitueinkenni sem voru alveg eins og ADHD-einkenni nema hann hafði aukaeinkenni sem einkenna börn sem eru með mikla streitu eða áfallastreitu og það eru þvag- og hægðavandamál. Það er það sem skilur á milli,“ segir hún.

Ekkert áfall of lítið

Aldrei hafði verið spurt um áföll sem Atli gæti hafa lent í á lífsleiðinni. „Ég missti barn úr krabbameini í janúar 1995 og Atli fæðist í nóvember og það getur verið að um yfirfærslu frá mér yfir á hann hafi verið að ræða en við getum fært áfallastreituröskun frá okkur sjálfum yfir á börnin okkar, jafnvel þau sem eru ófædd. Hann er búinn að lenda í bílslysum, bæði sjálfur og í bíl með mér, hefur tvisvar sinnum dottið illa á höfuðið og ég get talið upp mikið fleira eins og flutninga og mikil veikindi á heimili. Ef það hefði verið spurt um þetta, settur fyrir spurningalisti um áfallastreitu þá hefði strax komið í ljós að hann glímdi við áfallastreituröskun,“ segir Gréta en hún segir staðlaðan spurningalista sem nefnist CAPS-CA notaðan víða um heim til að skera úr um hvort börn séu með áfallastreituröskun. „Það er lífsnausynlegt að þessi listi sé lagður fyrir unglinga eða foreldra barna,“ segir hún, þar sem meðferðirnar við annars vegar áfallastreituröskun og hinsvegar ADHD séu gjörólíkar. „Það eru sjaldan gefin lyf við áfallastreituröskun heldur er unnið með því sem hefur gerst hjá börnunum.“

Ekkert áfall sé of lítið og hafa þurfi í huga að mun minna þurfi til hjá börnum en fullorðnum. „Bara það að týna uppáhaldsleikfanginu eða detta á íþróttaæfingu getur orðið til þess að barn þrói með sér áfallastreitu. Þetta er mikið alvarlegra en við gerum okkur grein fyrir,“ segir Gréta. Langvarandi streita geti valdið skemmdum í heila hjá börnum. „Þegar barn er lengi undir pressu þá verða skemmdir á framheilanum þannig að barnið á erfitt með að einbeita sér og sitja kyrrt, það getur jafnvel fengið hjartsláttartruflanir, átt erfitt með að sofna á kvöldin og verið sífellt pirrað eða reitt og jafnvel tilfinningalega frosið.“ Hún nefnir þó að einkenni einbeitingarerfiðleika og hreyfiofvirkni geti átt sér eðlilegar útskýringar. Fólki sé skipt í þrjá hópa: Úthverfa (15%), miðlæga (70%) og innhverfa (15%). „Þeir úthverfu eru með hægara blóðflæði í heila og halda bara athygli í 3-4 mínútur í einu. Þeir þurfa að hreyfa sig til að heilinn sofni ekki. Þessi börn eru alltaf á iði, t.d. í skólastofunni eða heima og geta því valdið truflun. Ef foreldrið eða kennarinn eru miðlæg eða innhverf þá fer þessi hegðun í taugarnar á þeim.“

Rítalín og fleiri lyf við ADHD virka einnig á börn …
Rítalín og fleiri lyf við ADHD virka einnig á börn sem ekki glíma við röskunina en þá aðeins í skamman tíma. mbl.is/ÞÖK
Gréta Jónsdóttir.
Gréta Jónsdóttir. mbl.is/Brynjar Gauti
Sonur Grétu hefur tvisvar verið ranglega greindur með ADHD.
Sonur Grétu hefur tvisvar verið ranglega greindur með ADHD. mbl.is/ÞÖK
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert