Fleiri sakaðir um kynferðisbrot

Fjórir starfsmenn þjóðkirkjunnar voru sakaðir um kynferðisbrot á síðasta ári. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.

Skýrsla fagráðs þjóðkirkjunnar um meðferð kynferðisbrota fyrir árið 2011 var birt Biskupsstofu í júlí. Þar kemur fram að allir einstaklingarnir sem ásakaðir voru hafi starfað í þjónustu á vegum kirkjunnar. Einu þeirra mála var lokið um síðustu áramót af hálfu fagráðsins. Ekki er hægt að fá upplýsingar um hversu margir einstaklingar leituðu til fagráðsins í fyrra eða hafa leitað til þess frá því það tók til starfa, segir í frétt Fréttablaðsins í dag.

Síðan árið 1998, þegar fagráðið tók til starfa, hafa borist ásakanir um kynferðisbrot á hendur 18 einstaklingum í þjónustu kirkjunnar. Af þessum málum voru sex enn á borði fagráðsins um síðustu áramót. Í þremur þessara 18 tilvika hefur fagráðinu borist fleiri en ein ásökun á hendur sama aðila.

mbl.is