Solveig Lára vígð sem vígslubiskup

Frú Agnes Sigurðardóttir, biskup Íslands, vígir sr. Solveigu Láru Guðmundsdóttur …
Frú Agnes Sigurðardóttir, biskup Íslands, vígir sr. Solveigu Láru Guðmundsdóttur til embættisins. Lengst til hægri er sr. Jón Aðalsteinn Baldvinsson vígslubiskup. mbl.is/þjóðkirkjan

Séra Solveig Lára Guðmundsdóttir var vígð af biskupi Íslands til embættis vígslubiskups á Hólum í dag. Hún er þar með önnur konan á Íslandi sem tekur biskupsvígslu á eftir frú Agnesi Sigurðardóttur, biskupi Íslands, sem vígð var til embættisins fyrr í sumar. Vígsla séra Solveigar Láru fór fram í Hóladómkirkju kl. 14 í dag.

Vígsluvottar voru sr. Jón Aðalsteinn Baldvinsson vígslubiskup á Hólum og sr. Kristján Valur Ingólfsson vígslubiskup í Skálholti ásamt sex erlendum biskupum auk sr. Gylfa Jónssonar og Unnar Halldórsdóttur, djákna. Athöfnin hófst með göngu presta stiftisins, biskupa og vígsluþega til kirkju.

Kórar Hóladómkirkju og Möðruvallaklaustursprestakalls sungu við athöfnina og organistar voru Jóhann Bjarnason og Sigrún Magnea Þórsteinsdóttir.

Sr. Solveig Lára Guðmundsdóttir var kjörin vígslubiskup á Hólum í júní
síðastliðnum. Hún tekur við starfinu þann 1. september næstkomandi.

Sr. Solveig Lára var sóknarprestur á Möðruvöllum í Hörgárdal í 12 ár en áður
þjónaði hún sem sóknarprestur á Seltjarnarnesi í 14 ár. Vert er að segja frá því að hún var fyrsta konan sem kjörin var sóknarprestur í almennri prestskosningu á höfuðborgarsvæðinu. Hún hefur skrifað tvær bækur;  „Augliti til auglitis,“ sem eru kristnar
íhuganir handa konum og „Aðgát skal höfð í nærveru sálar,“ sem er um
lífsreynslu og úrvinnslu tilfinninga.

Sr. Solveig Lára stundaði framhaldsnám í guðfræði í Þýskalandi veturinn 1998-1999 með
áherslu á kristna íhugun og sálgæslu. Veturinn 2009-2010 lagði hún stund á nám í
þjónandi forystu.

Eiginmaður sr. Solveigar er sr. Gylfi Jónsson, fv. héraðsprestur.

Biskupsvígslan fór fram í Hóladómkirkju.
Biskupsvígslan fór fram í Hóladómkirkju. mbl.is/Kirkjan
Séra Sólveig Lára Guðmundsdóttir var vígð af biskupi Íslands til …
Séra Sólveig Lára Guðmundsdóttir var vígð af biskupi Íslands til embættis vígslubiskups á Hólum í dag. mbl.is/Kirkjan
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert