Geir með nýjan sunnudagsþátt á ÍNN

Geir H. Haarde mun ásamt gestum ræða ýmis mál sunnudagsmorgnum …
Geir H. Haarde mun ásamt gestum ræða ýmis mál sunnudagsmorgnum á ÍNN. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, verður við stjórnvölinn í nýjum umræðuþætti á sunnudagsmorgnum á sjónvarpsstöðinni ÍNN í haust.

„Þetta leggst bara vel í mig, ég hef ekki fengist við svona þáttastjórnun áður en hlakka bara til,“ sagði Geir í samtali við mbl.is. Að sögn Geirs mun hann fá góða gesti til sín í sjónvarpssal þar sem hin ýmsu þjóðfélagsmál verða til umræðu. Endanleg dagsetning fyrsta þáttar liggur ekki fyrir sem stendur en stefnt er að því að hann fari í loftið um og upp úr miðjum septembermánuði.

Þrátt fyrir vera vanari því að sitja hinu megin borðsins og láta spyrja sig er Geir ekki alls óvanur störfum á fjölmiðlum. Starfaði hann sem blaðamaður á Morgunblaðinu fyrir einum fjörutíu árum síðan, þótt landslag fjölmiðlanna sé orðið töluvert annað í dag en þá að eigin sögn. Ásamt þáttastjórnuninni á ÍNN mun Geir áfram sinna ráðgjafastörfum á lögmannsstofunni Opus lögmenn í Austurstræti.

86,7% landsmanna ná útsendingum ÍNN

Samkvæmt könnun Capasent frá því í maí sl. ná 86,7% landsmanna útsendingum ÍNN. Eru vikulegir áhorfendur stöðvarinnar á annað hundrað þúsund samkvæmt sömu könnun en stöðinni er dreift stafrænt í gegnum bæði Símann og Vodafone um Digital Ísland.

Sem stendur er unnið að því að gera allar útsendingar ÍNN aðgengilegar á heimasíðu stöðvarinnar. Að sögn Ingva Hrafns Jónssonar framkvæmdastjóra er stefnt að því að sú verði orðin raunin um miðjan september næstkomandi.

mbl.is