3,1 stigs skjálfti í Mýrdalsjökli

Mýrdalsjökull.
Mýrdalsjökull. Rax / Ragnar Axelsson

Jarðskjálfti af stærðinni 3,1 varð í Mýrdalsjökli um sjöleytið í morgun. Skjálftinn varð á 1,1 km dýpi og voru upptekin um 5,9 km norður af Hábungu samkvæmt sjálfvirkum skjálftalista Veðurstofu Íslands. Nokkrir litlir skjálftar hafa fylgt í kjölfarið.

Skjálftar eru tíðir í Mýrdalsjökli en flestir eru þeir undir tveimur stigum að stærð. Annar skjálfti sem mældist 3,8 stig varð í Mýrdalsjökli á föstudaginn, við Austmannsbungu þar sem katlar eru í öskjunni. Í kjölfar þess skjálfta var sett á bakvakt í vatnaeftirliti í ám vegna hugsanlegs hlaups. 

Um 250 skjálftar urðu í Mýrdalsjökli í júlí og enn fleiri í júní þegar hátt á fjórða hundrað skjálfta mældist, samkvæmt Veðurstofu Íslands. Mesta virknin var innan Kötluöskjunnar, tæplega 160 skjálftar, og meiri virkni í nyrðri hluta hennar en þeim syðri. Stærsti skjálftinn í júlí var um þrír að stærð og varð 18. júlí kl. 19:45 í vestanverðri öskjunni. Sjö eftirskjálftar fylgdu strax í kjölfarið, allir minni en 1,5. Skjálftarnir voru allir grunnir og líklega  jarðhitatengdir.

Skjálftavirkni í Mýrdalsjökli undanfarna sólarhringa.
Skjálftavirkni í Mýrdalsjökli undanfarna sólarhringa. Kort/Veðurstofa Íslands
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert