Evrópa geti lært af Íslandi

Steingrímur J. Sigfússon
Steingrímur J. Sigfússon Mbl.is/Eggert Jóhannesson

Óveðursskýjunum sem söfnuðust yfir Íslandi árið 2008 hefur nú létt og ekki ætti að þykkna upp aftur, að því gefnu að hagkerfi heimsins hægi ekki enn frekar á sér. Svo segir í gestaleiðara sem Steingrímur J. Sigfússon ritar í Financial Times í dag. Steingrímur segir að viðbrögð Íslands við bankahruninu séu til eftirbreytni.

Lærdómur sem á erindi við aðra

Steingrímur rekur í stuttu máli áhrif bankahrunsins haustið 2008 og að útlitið hafi verið svart fram á mitt ár 2009. Spurningin hafi ekki verið hvort heldur hvenær Íslendingar lýstu sig gjaldþrota, en ekki hafi komið til þess vegna þess að frá miðju ári 2009 hafi verið hafist handa við að draga úr útgjöldum og auka tekjur ríkisins.

Fjárlög íslenska ríkisins undanfarin þrjú ár voru aldrei líkleg til vinsælda, segir Steingrímur, en í þeim fólust aðgerðir sem voru óumflýjanlegar. Fyrir vikið hafi fjárlagahallinn minnkað niður í 1-2% af vergri landsframleiðslu, úr 14% árið 2008. Steingrímur bendir á að hagvöxtur hafi verið 3,1 prósent á Íslandi árið 2011 og stefni í það sama á þessu ári, m.a. vegna aukinna fjárfestinga. Frá bankahruni hafi ríkissjóður Íslands tvisvar gefið út skuldabréf á alþjóðlegum mörkuðum. 

„Af þessu höfum við dregið ýmsan lærdóm sem að hluta á erindi við önnur Evrópulönd,“ segir Steingrímur í Financial Times. Ríkisstjórn Íslands hafi lagt áherslu á félagslega og efnahagslega samlögun. „Fólk með hærri tekjur hefur lagt meira af mörkum í gegnum innleiðingu á framsæknu skattkerfi, á meðan lágtekjufólki hefur verið hlíft. Minna var skorið niður í velferðarþjónustu en á öðrum sviðum. Niðurstaðan er sú sem stefnt var að: Jafnari tekjudreifing. Kaupmáttur lágtekjufólks hefur verið betur varinn en þeirra með háar tekjur og þannig hefur þeim verið gert kleift að vera áfram virkir þátttakendur í hagkerfinu.“

Verndun innistæðueigenda lykilatriði

Steingrímur segir að önnur lönd geti lært ýmislegt af því hvernig Íslendingar tóku á bönkunum. Ómögulegt hefði verið að bjarga öllu bankakerfinu árið 2008 og sú ákvörðun að skipta bönkunum upp í nýja og gamla hafi gefist vel. Hann nefnir ekki síst mikilvægi þess að vernda innistæðieigendur. „Reynslan um allan heim sýnir okkur að tryggingasjóður innistæðueigenda gefur aðeins takmarkaða og í sumum tilfellum falska vernd,“ segir Steingrímur.

Á Íslandi hafi innistæðutryggingakerfið verið sambærilegt við önnur Evrópulönd og reynst lítilmegnugt við hrun bankakerfisins. Alþingi hafi með setningu neyðarlaganna veitt innistæðueigendum forgang yfir aðra kröfuhafa og það hafi reynst lykilatriði til að komast út úr kreppunni. Neyðarlögin tryggi að allir kröfum allra innistæðueigenda hafi verið eða verði mætt að fullu, umfram lágmarkið sem Evrópusambandið setur. 

„Í flestum löndum hefði þurft mun minna en kerfisbundið bankahrun til að svipta hulunni af veikleikum núgildandi innistæðutryggingakerfis,“ segir Steingrímur. Hann hvetur leiðtoga Evrópu til að íhuga hvort ekki sé bæði tímabært og skynsamt að innleiða sambærilegan forgang innistæðueigenda í lög. Það muni senda skýr skilaboð um að ekki sé hægt að seilast í sparifé almennings þegar illa fer fyrir bönkunum.

Þannig geti erfið lexía Íslands kannski orðið Bretlandi og evrusvæðinu til góða. 

Grein Steingríms er birt hér á vef Financial Times en er aðeins aðgengileg áskrifendum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert