Gunnar Andersen ákærður

Gunnar Andersen, fyrrverandi forstjóri Fjármálaeftirlitsins, hefur verið ákærður.
Gunnar Andersen, fyrrverandi forstjóri Fjármálaeftirlitsins, hefur verið ákærður. Ljósmynd/Ragnar Th. Sigurðsson

Ríkissaksóknari hefur gefið út ákæru á hendur Gunnari Andersen, fyrrverandi forstjóra Fjármálaeftirlitsins, og starfsmanni Landsbankans fyrir brot á þagnarskyldu. Tilefnið er öflun fjárhagslegra upplýsinga um Guðlaug Þór Þórðarson. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.

Gunnar og starfsmaður Landsbankans eru ákærðir fyrir brot á þagnarskyldu með því að brjóta bankaleynd, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins. Gunnar hefur auk þess verið ákærður fyrir brot í opinberu starfi. Ákæran var gefin út um miðjan júlí síðastliðinn. Fram kemur í Fréttablaðinu að brot á þagnarskyldu geti varðað allt að þriggja ára fangelsi.

Gunnari var sagt upp störfum hinn 1. mars og gert að hætta strax. Sama dag kærði stjórn FME hann til lögreglu fyrir brot í starfi. Hann er talinn hafa nýtt sér aðstöðu sína til að ná í upplýsingar um fjármál Guðlaugs Þórs Þórðarsonar alþingismanns í gegnum starfsmann Landsbankans. Þeim gögnum var síðan komið til DV sem birti frétt byggða á gögnunum.

Gögnunum lekið til DV

Starfsmaður Landsbankans sem aflaði gagnanna var sendur í ótímabundið leyfi meðan á rannsókn málsins stóð. Auk þeirra tveggja höfðu Ársæll Valfells, lektor við Háskóla Íslands, og Ingi Freyr Vilhjálmsson, fréttastjóri DV, réttarstöðu sakborninga í málinu. Mál þeirra tveggja síðastnefndu var hins vegar látið niður falla og var þeim tilkynnt það seinnipart júlímánaðar.

Ársæll segir í yfirlýsingu sem send var út 12. mars að starfsmaður Landsbankans hafi bankað á dyr heima hjá honum með gögn sem áttu að fara til Gunnars Andersens, fyrrverandi forstjóra FME. Hann hafi haft samband við Gunnar sem bað hann að koma gögnunum til fréttastofu DV. Hann hafi komið gögnum um Guðlaug Þór frá FME til DV. 

Hinn 29. febrúar birtist síðan frétt í DV um að eignarhaldsfélag í eigu Guðlaugs Þórs hefði fengið greiddar tæpar 33 milljónir króna frá Landsbanka Íslands í júní 2003 vegna sölu hans á umboði fyrir tryggingamiðlun svissneska tryggingafélagsins Swiss Life, sem hann seldi til Landsbankans á þessum tíma.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert