Þrír viðræðukaflar stranda á makríldeilunni

Stefán Haukur Jóhannesson, aðalsamningamaður Íslands, og Michael Leigh, fyrrverandi yfirmaður ...
Stefán Haukur Jóhannesson, aðalsamningamaður Íslands, og Michael Leigh, fyrrverandi yfirmaður stækkunarskrifstofu Evrópusambandsins. Ljósmynd/Utanríkisráðuneytið

Einir þrír kaflar viðræðna Íslands við Evrópusambandið um inngöngu í sambandið stranda á makríldeilunni samkvæmt heimildum mbl.is. Eins og fram kom í máli Mariu Damanaki, sjávarútvegsstjóra Evrópusambandsins, í heimsókn hennar til Íslands fyrr í sumar leggjast nokkur ríki sambandsins gegn því í ráðherraráði sambandsins að kafli 13 um sjávarútvegsmál verði opnaður vegna deilunnar. Ásættanleg lausn hennar mun vera sett sem skilyrði fyrir opnun kaflans.

Þá herma heimildir mbl.is að hið sama eigi við um tvo aðra kafla sem tengjast sjávarútvegsmálunum. Þar er annars vegar um að ræða kafla 3 um staðfesturétt og þjónustufrelsi og hins vegar kafla 4 um frjálsa fjármagnsflutninga. Báðir tengjast þeir möguleikum erlendra aðila til þess að fjárfesta í íslenskum sjávarútvegi og stofna hér á landi fyrirtæki í atvinnugreininni.

Staðfest af fulltrúum samninganefndarinnar

Heimildir mbl.is herma ennfremur að staða viðræðnanna í þessum efnum hafi verið á meðal þess sem rætt var um á fundi utanríkismálanefndar Alþingis þann 13. ágúst síðastliðinn. Þar hafi komið fram í máli fulltrúa samninganefndar Íslands gagnvart Evrópusambandinu, sem boðaðir höfðu verið á fundinn, að viðræðurnar í áðurnefndum köflum strönduðu á makríldeilunni.

Eins og fjallað hefur verið um á mbl.is hafa samtals 18 kaflar af 35 verið opnaðir síðan viðræðurnar um inngöngu Íslands í Evrópusambandið hófust formlega í júní 2010. Af þeim hefur tíu verið lokað til bráðabirgða. Flestir af þeim 18 köflum sem opnaðir hafa verið heyra undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið (EES) sem Ísland hefur verið aðili að síðan 1994 eða 15 talsins.

Óásættanlegt að tengja málin saman

Fram til þessa hafa forystumenn ríkisstjórnarinnar ekki viljað meina að makríldeilan hefði áhrif á viðræðurnar um inngöngu í Evrópusambandið enda væri um að ræða ótengd mál. Ekki væri á hinn bóginn ásættanlegt ef málunum væri blandað saman af sambandinu. Ennfremur sagði Steingrímur J. Sigfússon, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, meðal annars á Alþingi í mars síðastliðnum að erfitt væri að halda viðræðunum áfram ef dregin yrðu inn í þær óskyld mál eins og makríldeilan.

Ljóst hefur hins vegar verið töluvert lengi að á vettvangi Evrópusambandsins væru málin tengd saman. Bæði hafa einstök ríki sambandsins gert það, þá einkum Írland, en einnig hefur það verið gert af Evrópuþinginu og í ráðherraráðinu. Þannig var til að mynda lögð áhersla á mikilvægi þess að ná ásættanlegri niðurstöðu í makríldeilunni í ályktun utanríkismálanefndar Evrópuþingsins um stöðuna í viðræðunum um inngöngu Íslands í Evrópusambandið í mars síðastliðnum

Hótað með annarri og samið með hinni

Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins og fulltrúi í utanríkismálanefnd, segir aðspurð að það sé vissulega rétt að á fundi nefndarinnar 13. ágúst síðastliðinn hafi komið fram í máli fulltrúa samninganefndar Íslands gagnvart Evrópusambandinu að umræddir þrír kaflar viðræðnanna strönduðu á makríldeilunni. Hún rifjar ennfremur upp þau ummæli Damanaki í heimsókn hennar til Íslands að nokkur ríki sambandsins legðust gegn því í ráðherraráðinu að opna sjávarútvegskaflann.

„Þar var það staðfest með beinum hætti að þessi mál eru tengd. Það er verið að stöðva nokkra kafla viðræðnanna og koma í veg fyrir að þeir verði opnaðir einmitt vegna makríldeilunnar. Hvernig ætlar ríkisstjórn Íslands að bregðast við því? Vitanlega á einfaldlega bara að segja að það gangi ekki upp að verið sé að hóta okkur með annarri hendinni og semja við okkur með hinni. Slík vinnubrögð eru einfaldlega ólíðandi,“ segir hún.

Viðræðurnar engan veginn á áætlun

Ragnheiður nefnir varðandi kafla 4 um frjálsa fjármagnsflutninga að samningsafstaðan í honum hafi verið tekin út úr viðkomandi samningahópi 7. maí síðastliðinn eins og sjá megi á heimasíðu utanríkisráðuneytisins en afstaðan hafi hins vegar ekki enn verið lögð fyrir utanríkismálanefnd Alþingis rúmum fjórum mánuðum síðar. Ástæðan sé, eins og áður kemur fram, að kaflinn hafi verið stöðvaður á vettvangi Evrópusambandsins.

„Þannig að það er alveg sama hvernig á það er litið. Það er engan veginn hægt að halda því fram að þessar viðræður við Evrópusambandið séu á áætlun eins og haldið hefur verið fram,“ segir hún ennfremur.

Steingrímur J. Sigfússon, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, og Maria Damanaki í ...
Steingrímur J. Sigfússon, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, og Maria Damanaki í Brussel í janúar síðastliðnum. mbl.is
Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins.
Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Golli
mbl.is